fim. 16. maí 2024 09:31
Sjávariðjan mun flytja út töluvert af ferskum fiski í pappakössum.
Finna fyrir áhuga á fiski í pappakössum

Sjávariðjan á Rifi á Snæfellsnesi gekk nýverið frá samningi við Stora Enso um kaup á vél til að útbúa pappakassa undir ferskan hvítfisk til útflutnings. Kassar af þessari tegund hafa verið í notkun um nokkurt skeið en vinsældir þessarar lausnar virðast fara vaxandi í íslenskum sjávarútvegi og meðal kúnna erlendis.

„Við höfum verið að prófa okkur áfram með þetta og erum komin með kúnna sem við gætum verið að selja um 40 þúsund kassa (af fiski) til að byrja með og ákváðum að slá til og kaupa vél til að búa til þessa kassa,“ segir Alexander Friðþjófur Kristinsson, framkvæmdastjóri Sjávariðjunnar, í Morgumblaðinu í dag.

https://www.mbl.is/200milur/frettir/2021/04/23/thetta_hefur_verid_halfgert_aevintyri/

Hann segir markmiðið með að taka pappann í notkun hafa verið að geta boðið viðskiptavinum umhverfisvænni lausn og gera betur í umhverfismálum. Pappinn er endurvinnanlegur en mun erfiðara er að endurvinna frauðplast.

Spurður hvort algengt sé að viðskiptavinir biðji um umhverfisvænni flutningsumbúðir sem þessar viðurkennir Alexander Friðþjófur að viðskiptavinir leiti ekki sérstaklega eftir því að eigin frumkvæði, en það sé aðallega vegna þess að þeir viti ekki af þessum möguleika. „Þegar kúnnanum stendur þessi lausn til boða þá vill hann hana,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

til baka