fim. 16. maí 2024 15:37
Forseti georgíska þingsins sagði ósatt um niðurstöðu fundar ef marka má orð Þórdísar og utanríkisráðherra Eistlands.
Segir forseta þingsins segja ósatt frá fundinum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að forseti georgíska þingsins, Shalva Papuashvili, fari ekki með rétt mál um niðurstöðu fundar sem Þórdís og utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna áttu með Papuashvili.

Fundurinn var haldinn í gær og á honum voru rædd nýsamþykkt lög sem hafa verið gagnrýnd af vestrænum ríkjum fyrir að vera samin undir rússneskum áhrifum.

Eftir fundinn var haft eftir Papuashvili í georgískum miðlum að utanríkisráðherrar Íslands, Eistlands, Litháens og Lettlands hefðu „allir verið sammála því að við gerðum rétta hlutinn þegar við hlustuðum ekki á evrópska kollega okkar og settum ekki þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi“.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/05/14/thordis_kolbrun_a_leid_til_georgiu/

„Vorum alls ekki sammála“

Í samtali við mbl.is segir Þórdís þetta ekki vera rétt hjá forseta georgíska þingsins og mjög umhugsunarvert. Svona taktík þekkist hjá „ákveðnum löndum“ en sé sérstök í ljósi þess að Eystrasaltsríkin séu nánustu bandamenn Georgíu.

„Við vorum alls ekki sammála og það voru hreinskipt samtöl,“ segir hún og bætir við:

„Þannig það er umhugsunarvert þegar stjórnvöld koma fram eftir slík samtöl, með sínum helstu vinum, og það kallar á leiðréttingu frá þeim sjálfum og okkur.“

Hún benti á að aðrir á fundinum hefðu einnig sagt forseta georgíska þingsins fara með rangt mál. Utanríkisráðherra Eistlands sagði til dæmis á X að þetta væri ekki rétt hjá forsetanum. 

 

Skiptir Íslendinga máli

Ferð ráðherr­anna var far­in í fram­haldi af sam­eig­in­legri yf­ir­lýs­ingu Norður­land­anna og Eystra­salts­ríkj­anna (NB8-ríkj­anna) sem gef­in var út á föstu­dag­inn.

„Allur árangur Rússlands til áhrifa, beint og óbeint dregur úr líkum á langtímafriði og eykur líkur á átökum. Þetta skiptir Íslendinga máli,“ segir Þórdís.

Hún segir að löggjöfin sé mjög samrýmanleg löggjöfinni eins og hún byrjaði í Rússlandi. Síðan þá hefur löggjöfin þar breyst áfram til hins verra.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/05/15/hafa_ahyggjur_af_nysamthykktum_logum/

Hefur áhyggjur af þróuninni

Spurð hvort að hún hafi áhyggjur af því hvort að Georgía sé að færast nær Rússlandi og að stjórnvöld séu mögulega að gefa eftir mannréttindi segir hún:

„Þegar hlustað er á málflutninginn fyrir þessari löggjöf þá heyrir maður að það sem er undirliggjandi er í raun að takmarka grundvallarréttindi fólks og frelsi til þess að tjá sig, tala fyrir sínum málstað, gagnrýna stjórnvöld og svo framvegis,“ segir Þórdís og bætir við:

„Þannig já, ég hef áhyggjur af því. Við höfum áhyggjur af því og flest – ef ekki öll – líkþenkjandi ríki okkar hafa áhyggjur af nákvæmlega þessu.“

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/05/15/hvetur_georgiu_til_ad_leggja_login_a_hilluna/

Samin undir rússneskum áhrifum

Fjölmiðlalögin sem þingið var að samþykkja kveða á um að fjöl­miðlar sem sækja meira en 20% fjár­magns síns frá er­lendu ríki, verði að skil­greina sig sem fjöl­miðil sem starfar í þágu er­lends rík­is.

Salome Zourabichvili, forseti Georgíu, hefur gefið það út að hún muni ekki skrifa undir lögin, en sem fyrr segir eru þau umdeild hef­ur þeim verið harðlega mót­mælt í Georgíu undanfarið.

Þórdís og utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna funduðu í ferð sinni með forseta Georgíu, utanríkisráðherra Georgíu, forsætisráðherra Georgíu, forseta þingsins, þingmönnum meirihlutans og minnihlutans sem og frjálsum félagasamtökum.

„Lögin þykja samin undir sterkum rússneskum áhrifum, en sambærileg lög sem voru samþykkt í Rússlandi á sínum tíma höfðu alvarlegar afleiðingar fyrir fjölmiðla og starf frjálsra félagasamtaka þar í landi,“ segir Þórdís að lokum.

til baka