lau. 4. maí 2024 16:11
Haldin var í fyrsta sinn málstofa fyrir ungmenni af erlendum uppruna á aldrinum 13-18 ára.
Öruggt rými fyrir líflegar samræður

„Helstu áherslurnar á þinginu í ár eru samskipti, viðhorf og lýðræði,“ segir Guðný Bára Jónsdóttir, verkefnastjóri á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.

Um er að ræða fjölmenningarþing borgarinnar, sem haldið var fyrr í dag í Hinu húsinu, undir yfirskriftinni „Að tilheyra – Belonging“.

„Áður en við fórum að undirbúa þingið þá fórum við á vinnustofu með fjölmenningarráði og menningarsendiherrum Reykjavíkur og hugmyndin um að tilheyra kom upp þar,“ segir Guðný innt eftir hugmyndinni á bak við yfirskriftina í ár. 

Endurlífga þingið eftir heimsfaraldurinn

Fjölmenningarþing Reykjavíkurborgar var fyrst haldið árið 2011 og svo árlega eftir það en vegna samkomutakmarkana stjórnvalda var það síðast haldið árið 2019.

„Nú erum við að endurlífga þingið upp á nýtt. Þingið er alltaf vel sótt og nú erum við að reyna að búa til hæðina á ný, erum í Hinu húsinu og hér var opið til klukkan þrjú í dag og alls konar mismunandi viðburðir í boði.“

 

Menningu miðlað í gegnum bókmenntir

Segir meðal annars á vef Reykjavíkurborgar að þingið sé mikilvægur vettvangur virkrar umræðu sem snerti á málefnum innflytjenda og fólks af erlendum uppruna. Reykjavíkurborg sé fjölmenningarborg og um fjórðungur íbúa hennar sé af erlendum uppruna.

„Það er mjög mikilvægt að vera með öruggt rými þar sem fólk getur komið og hitt hvort annað og átt líflegar samræður þar sem við fjöllum um mismunandi málefni,“ segir Guðný spurð hversu þarft þing sem þetta sé fyrir fjölmenninguna í landinu.

„Eins og málstofan sem Eliza Reid forsetafrú var að stýra ásamt Veroniku Egyed, Luciano Dutra og Hallgrími Helgasyni en þau voru að fjalla um bókmenntir og hvernig þær geta opnað aðra heima, bæði erlendar bókmenntir yfir á íslenskt mál og íslenskar bókmenntir yfir á erlend mál.

Hvernig við getum miðlað menningu í gegnum bókmenntir er alveg magnað og þingið er einn partur af þessu þar sem við getum átt mismunandi samtöl um það sem er í gangi í Reykjavík og annars staðar í heiminum í dag.“ 

 

Málstofa sérstaklega ætluð ungmennum

Þá var í fyrsta sinn boðið upp á málstofu sem var sérstaklega ætluð ungu fólki af erlendum uppruna á aldrinum 13-18 ára þar sem það gat rætt um upplifun sína í samfélaginu.

„Antirasistarnir og Isabel Diaz, ásamt stofnuninni Nordic Pioneer, unnu að þessari málstofu í sameiningu en hún er ætluð sem öruggt rými fyrir ungmenni af erlendum uppruna til þess að koma og ræða sína upplifun af því hvernig er að vera ungmenni af erlendum uppruna á Íslandi,“ segir Guðný og bætir við að um sé að ræða mikilvægan vettvang fyrir ungmennin til að taka og eiga samtalið. 

„Það er kannski þannig að þeim gefst kannski ekki alltaf færi á að ræða þetta sín á milli á jafningjagrundvelli en þetta fór þannig fram að fyrst var stutt kynning og svo var unnið í hópavinnu þar sem þau unnu í borðavinnu saman að þessu málefni.“

til baka