Hlaut dánaraðstoð í óþökk fjölskyldu, án greiningar

Atvikið átti sér stað á einkareknu sjúkrahúsi sem sérfærir sig …
Atvikið átti sér stað á einkareknu sjúkrahúsi sem sérfærir sig í dánaraðstoð. AFP

Breskur kennari 47 ára að aldri fékk dánaraðstoð í Sviss án vitneskju fjölskyldu sinnar og án þess að vera með greindan sjúkdóm.

Alastair Hamilton lést eftir að hafa verið sprautaður á Pegasos-sjúkrahúsinu í Basel, einkareknu sjúkrahúsi sem sérhæfir sig í dánaraðstoð.

Hann hafði þá sagt foreldrum sínum að hann væri að heimsækja vin sinn í París. Telegraph greinir frá en móðir hans Judith, 81 árs, heimsótti sjúkrahúsið í heimildarmynd í ITV, eftir að það hafði beðist afsökunar á mistökunum.

„Við fengum ekki þann möguleika að vera annaðhvort með honum eða í mínu tilfelli: draga hann heim, með kjafti og klóm ef þess þyrfti,“ segir móðir hans.

Átti við eitthvað að stríða, en læknar sáu það ekki

Pegasos, sem er rekið af Ruedi Habegger, krefst þess ekki að fólk sé veikt til að fá beiðni sína samþykkta, ólíkt mörgum öðrum stöðvum.

Hamilton, sem var efnafræðikennari frá Hampton í suðvesturhluta Lundúna, hafði glímt við skapsveiflur áður en hann flaug út á heilsugæslustöðina. Hann hafði hætt nýlega fullri vinnu og flutti aftur til foreldra sinna þegar hann fór að léttast og finna fyrir aukinni þreytu.

Læknar gátu ekki staðfest nein veikindi eða sjúkdóm hjá honum þrátt fyrir að hann hafi farið í nokkrar skoðanir.

Bróðir hans Toby, 52 ára, sagði í viðtali við The Mail á sunnudag að hann hefði verið farinn að tala um sjálfsvíg „eins og hann væri að tala um að fara að kíkja á krána“.

Hamilton flaug til Sviss 10. ágúst. Faðir hans, Edward 85 ára, keyrði hann til Gatwick-flugvallar í þeirri trú að sonur hans væri að hitta vin sinn í Frakklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert