Land risið um 20 sentimetra: Gæti gosið án fyrirvara

Horft yfir gíginn þann 9. maí.
Horft yfir gíginn þann 9. maí. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Nýjar gossprungur gætu opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og hraunflæði gæti orðið álíkt því sem varð við upphaf síðustu eldgosa á svæðinu. Þetta gæti gerst með mjög stuttum, jafnvel engum fyrirvara.

Frá þessu greinir Veðurstofan í nýrri tilkynningu.

Þar segir að land rísi í Svartsengi með sama hraða og áður.

„Frá 16. mars, þegar síðasta eldgos hófst, hefur land risið um tæplega 20 cm á GPS stöðinni í Svartsengi. Kvikusöfnun heldur því áfram og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi,“ segir í tilkynningunni.

Komið upp fyrir efri mörkin

Tekið er fram að í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafi um 8 til 13 milljónir rúmmetra af kviku bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða, áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu yfir í Sundhnúkagígaröðina.

„Nú er magn kviku sem bæst hefur við frá 16. mars komið upp fyrir efri mörkin.“

Stöku skjálftar nærri 2 að stærð

Skjálftavirkni er sögð nokkuð svipuð á milli daga.

„Síðustu viku hafa um 50 til 80 skjálftar mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar. Flestir skjálftanna eru undir 1,0 að stærð en stöku skjálftar nærri 2,0 að stærð hafa mælst.“

Merki um nýtt kvikuhlaup væru eins og áður staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hraðari aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar er loks sögð fylgjast náið með virkninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert