Tímaspursmál hvenær framleiðslu verði hætt

mbl.is/Eggert

Alls seldust 23.688 lítrar af áfengi í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins á síðasta ári og dróst salan á lítrum þannig saman um 2% milli ára. Sala á neftóbaki dróst jafnframt saman og segir forstjóri ÁTVR einungis tímaspursmál hvenær framleiðslu þess verði hætt. Þetta kemur fram í árs og samfélagsskýrslu ÁTVR 2023

Í formála skýrslunnar fer Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR, yfir árið og lýsir áþreifanlegum breytingum í rekstrarumhverfinu. Þessar breytingar segir hann meðal annars lýsa sér í því að hagnaður af reglulegri starfsemi sé að dragast saman. 

„Vegur þar þyngst ólögleg netsala áfengis og mikill samdráttur í tóbakssölu.“

Nikótínpúðar tekið yfir markaðinn 

„Sala neftóbaks heldur áfram að dragast saman og einungis seldust um 10 tonn á síðasta ári,“ segir í formálanum og í sundurliðun ársreikningsins má sjá að selt magn tóbaks dróst saman um 19,01% milli ára. 

Ívar Arndal, forstjóri ÁTVR.
Ívar Arndal, forstjóri ÁTVR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á sama hátt minnkaði sígarettusala um tæp 9%, en alls seldi vínbúðin tóbak fyrir 9,9 milljarðar króna. Í formálanum segir Ívar þetta stafa af því að sala á nikótínpúðum, sem ekki bera tóbaksgjald og eru þar af leiðandi mun ódýrari en íslenska neftóbakið, hafi tekið yfir markaðinn. 

„Ef svo fer sem horfir með íslenska neftóbakið er aðeins tímaspursmál hvenær framleiðslu þess verður hætt.“

Nikótínpúðar hafa leyst af hólmi neftóbakið að miklu leyti.
Nikótínpúðar hafa leyst af hólmi neftóbakið að miklu leyti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gæti þurft að skerða þjónustuna verulega

Ívar fer nánar yfir afleiðingar ólöglegrar netsölu neðar í formálanum og greinir frá því að arðgreiðsla ÁTVR í ríkissjóð lækki um 400 milljónir króna frá því sem áður var. Verði ekkert gert varðandi netsölu segir hann líklegt að ÁTVR verði að skerða þjónustuna verulega á næstu árum svo ekki komi til hallareksturs. 

Í því samhengi rifjar hann um tilgang rekstursins og útskýrir að hann byggi á augljósum lýðheilsu- og samfélagsástæðum sem felist meðal annars í því að takmarka aðgengi að áfengi og vinna gegn misnotkun áfengis og skaðlegum áhrifum þess.

„Hér á landi hefur ÁTVR einkaleyfi til smásölu áfengis.“

mbl.is/Unnur Karen

Ekkert heyrt frá lögreglu vegna kæru 

ÁTVR hefur þó ekki setið aðgerðarlaust frammi fyrir vaxandi umsvifum ólöglegrar netsölu áfengis því árið 2020 kærði ÁTVR söluna til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fjögur ár eru liðin frá kærunni og segir Ívar engin svör hafa borist frá lögreglunni. 

„Það er eftirtektarverð stjórnsýsla að upplýsa kæranda ekkert um stöðu mála eftir fjögurra ára rannsókn,“ segir Ívar sem kveðst ekki trúa öðru en að lögreglan komist að niðurstöðu í kærumálinu á næstu vikum. Annað væri óásættanlegt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert