Sigurður Arnar Jónsson fæddist á Egilsstöðum 31. júlí 1972. Hann lést 17. apríl 2024.

Hann var sonur Ingibjargar Sigurðardóttur, f. 15. ágúst 1954 og Jóns Inga Arngrímssonar, f. 8. mars 1955. Eiginkona Jóns er Arna Soffía Dal Christiansen, f. 10. maí 1957.

Systkini Sigurðar eru Óli Rúnar, f. 27. október 1980, eiginkona hans er Erna Gunnþórsdóttir, f. 14. maí 1984 og eiga þau fjögur börn, og Sigurlaug, f. 15. september 1986, eiginmaður hennar er Andri Ólafsson, f. 7. febrúar 1987, og eiga þau fjögur börn.

Fyrri eiginkona Sigurðar er Guðbjörg Oddsdóttir, f. 20. mars 1972. Börn þeirra eru Karlotta, f. 19. mars 1997, sambýlismaður hennar er Sean Anthony Emeka Thomas, f. 23. nóvember 1989, og Oddur Vilberg, f. 22. ágúst 1999. Sambýliskona hans er Metta Margrét Muccio, f. 28. júlí 1996.

Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Hlín Ósk Þorsteinsdóttir, f. 29. apríl 1971. Foreldrar Hlínar eru Þorsteinn Sigurður Þorsteinsson, f. 17. júlí 1938 og Hjörleif Einarsdóttir, f. 7. apríl 1941. Dætur Hlínar og Sigurðar eru Malen Ósk, f. 14. september 2004, kærasti hennar er Börkur Darri Hafsteinsson, f. 29. janúar 2003 og Elsa Hlín, f. 19. febrúar 2009. Stjúpsonur Sigurðar og sonur Hlínar er Kristófer Eyleifsson, f. 27. júlí 1997. Sambýliskona hans er Anna Margrét Benediktsdóttir, f. 16. október 1997.

Sigurður Arnar ólst upp í Fellabæ, gekk í grunnskóla á Egilsstöðum og útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 1992. Á yngri árum sinnti hann ýmsum forystuhlutverkum innan íþrótta- og félagsstarfa, til dæmis í nemendafélagi í grunnskóla, sinnti formennsku íþróttafélags ME og var fyrirliði Hattar í yngri flokkum í knattspyrnu.

Sigurður útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1996, með endurskoðun og reikningsskil sem sérsvið. Seinna lauk hann einnig löggildingu sem verðbréfamiðlari, leigumiðlari og fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali.

Samhliða námi starfaði Sigurður sem verkefna-, viðburða- og framkvæmdastjóri Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands á árunum 1988-1996. Frá árinu 1997-2021 starfaði Sigurður sem forstjóri Motus (intrum Justitia). Á þeirri vegferð tók Motus m.a. yfir 25-30 smærri einingar samhliða því að byggja upp net útibúa á Íslandi, í Færeyjum og í Kanada. Sigurður starfaði svo sem framkvæmdastjóri Eigna- og aðstöðustýringa hjá FSRE (Framkvæmdasýslunni-Ríkiseignir). Einnig sat Sigurður í stjórnum hinna ýmsu félaga.

Sigurður varði stórum hluta frítíma síns við íþróttaiðkun, áður fyrr mest í knattspyrnu, handbolta og á skíðum. Í seinni tíð voru stundirnar með fjölskyldunni honum kærastar, ferðalög bæði innanlands og utan, ásamt golf- og skíðaiðkun. Hann var mikill golfáhugamaður og var meðlimur bæði í GKG og GR.

Sigurður var einnig mikill áhugamaður um persónulega framþróun og hverjar þær leiðir sem fólk getur nýtt sér til að þróa sig og þroska á lífsleiðinni.

Útför Sigurðar Arnars fer fram frá Lindarkirkju í dag, 30. apríl 2024, klukkan 13.

Þú varst öryggið mitt í allri óvissunni sem lífið hefur boðið upp á.
Þú varst ráðgefandi í öllum stórum ákvörðunum sem ég hef tekið.
Þú varst verndandi afl í aðstæðum sem þú komst mér hjá því að upplifa.
Þú varst kröfuharður á rök fyrir ákvörðunum, svo allar forsendur væru skýrar.
Þú varst hlustandi þegar tárin runnu.
Þú varst faðmurinn í niðurbrotinu.
Þú varst leiðbeinandi í sjálfsvinnunni.
Þú varst áhugasamur um menntun mína og störf.
Þú varst hvetjandi afl í starfsframanum.
Þú varst stoltur af árangri mínum.
Þú varst stóri bróðir minn með skynsömu röddina.
Þú varst risastór áhrifavaldur í lífi mínu ...
og nú ertu farinn.

Síðustu daga hafa minningarnar sótt á mig og þær sem hafa tekið mest pláss eru annars vegar gleðistundir með þér; hláturinn þinn, sögustundir og misgóðir brandarar, og hins vegar stundirnar þar sem þú hefur gripið mig og haldið þétt í gegnum sum mín erfiðustu tímabil.


Þú varst sá fyrsti sem ég hringdi í þegar ég fékk einkunnirnar mínar í lok hverrar annar, hefð sem myndaðist í yngri bekkjum grunnskóla þegar það var ennþá ódýrara að hringja til Reykjavíkur eftir kl. 19 á kvöldin. Stundum fékk ég hrós, stundum spurningar um hvað hefði klikkað. Einu sinni sagði ég þér stolt frá því ég hefði fengið 8 í stærðfræði og viðbrögð þín voru að svara til baka: Nú? Af hverju fékkstu ekki 10? Ég varð svo móðguð að ég rótaði í geymslunni eftir gömlum einkunnaspjöldum frá þér til að komast að því að þínar hefðu ekki verið betri. Með leynivopn í höndunum hringdi ég til baka og slengdi fram nýfundnum upplýsingunum til þess eins að vera svarað með því að þó þú hefðir fengið þessar einkunnir ætti ég að geta gert betur.

Þessi hefð sem skapaðist kostaði líka þónokkur sársaukafull samtöl þegar námsárangurinn lét standa á sér og oft var erfiðasti parturinn að flytja þér fréttirnar. Ég vildi að þú værir stoltur af mér.
Þú gerðir allt sem þú gast til að tryggja að ég ætti auðvelt með að mennta mig og rækta. Þú gafst mér fyrstu fartölvuna og allar fartölvur í gegnum námsárin mín komu notaðar frá þér. Einu sinni hrundi tölvan mín í miðri prófatíð á Bifröst og ég hringdi í rusli í þig. Ég brunaði í bæinn og nokkrum klukkutímum síðar hafðir þú leyst málið með hjálp góðra manna. Ég komin til baka með aðra gamla tölvu frá þér, og glósurnar á skrifuðum geisladisk.
Þú gafst mér fyrstu alvöru hlaupaskóna mína og styrktir fyrsta líkamsræktarkortið í Reykjavík, spurðir mig reglulega hvort ég væri ekki að hreyfa mig og deildir með mér hvað virkaði helst fyrir þig og hvað ekki.

Þú kynntir mér alls konar efni til sjálfsræktar og sjálfshjálpar, allt frá því ég var í menntaskóla, en síðasta sjálfshjálparbókin kom upp úr jólapakka til mín fyrir þremur árum.
Velferð mín, árangur og öryggi var þér alltaf mikilvægt.
Þú áttir inni svo mikið af hugmyndum sem þú varst duglegur að deila á tímabilum. Þig langaði að aðstoða annað fólk og hafðir margar ólíkar nálganir í huga hvað það varðaði.

Ég veit ekki hvernig maður nær utan um svona mikil og stór áhrif, eins og þú hafðir á líf mitt, í einni lítilli minningargrein. Frá því að gefa mér pela, leyfa mér að fylgja þér um ganga menntaskólans, þjálfa mig í knattspyrnu, kenna mér að gefa til baka í sjoppunni á Sumarhátíð UÍA á Eiðum, horfa á þig spila fótboltaleiki (alltaf í rigningu í minningunni), keyra með þér suður á haustin á pökkuðum bílnum, fara með þér til Hollands sem barnapía (en þora svo aldrei að vera ein að passa), gista heima hjá þér í flestöllum ferðum mínum til Reykjavíkur áður en ég flutti þangað, halda með þér jólin hér og þar, Bræðslurnar allar, samverustundirnar á Laufásnum, brúðkaupin, droppa inn í hádegismat í vinnuna til þín, vinna hjá þér.

Þegar ég sagði þér ég ætlaði að taka eitt ár í frí frá skóla eftir stúdentinn þá brástu við með dæmisögum um alla þá sem þú þekktir sem hefðu ætlað slíkt hið sama en aldrei farið aftur í nám. Þú sættist þó á það að lokum og bauðst mér starf í Intrum í Reykjavík þann vetur. Eitthvað segir mér að þú hafir vitað upp á hár hvað þú varst að gera því einhæfara og einfaldara starfi hef ég ekki sinnt á öllum mínum starfsferli og þegar vetrinum lauk var ég búin að hlusta á allar útvarpssögur og tvíhöfðaþætti sem ég fann á sarpinum hjá RÚV. Á miðjum vetri áttaði ég mig á að líklega værir þú að tryggja að ég færi til baka í skóla, sem ég gerði með glöðu geði haustið á eftir.

Ég mun hugsa um þig alltaf þegar ég heyri í Sálinni, Bubba og Nýdönsk. Ég mun líka alltaf hugsa til þín þegar ég sé dós af Magic, þegar ég sé leik með Liverpool og þegar ég keyri framhjá gamla UÍA-svæðinu á Eiðum. Þegar ég sé skærgræna litinn. Þegar ég á leið framhjá Ekkjufelli, Háafelli og Laufásnum. Heima í Fellabæ. Þegar ég keyri Sigtúnið, Kambsveginn og Krossalindina. Þegar ég sit og horfi á stólinn þinn á heimili ykkar Hlínar í Þrúðsölunum. Þegar börnin mín fá einkunnir. Þegar þau takast á við áföll. Á samverustundum með börnunum þínum.

Ég vildi að við hefðum átt lengri tíma elsku Siggi og í huga mér kom ekkert annað til greina. Ég vildi að ég hefði getað verið brotabrot af þeim stuðningi fyrir þig, sem þú varst fyrir mig.

Takk fyrir allt.



Sigurlaug (Silla) systir.