4. umferð: Aðeins Eiður og Þórarinn yngri - Patrick fjórði

Eiður Smári Guðjohnsen, 15 ára gamall, berst við Pétur Marteinsson …
Eiður Smári Guðjohnsen, 15 ára gamall, berst við Pétur Marteinsson en Gauti Laxdal stendur hjá í leik Vals og Fram árið 1994. Eiður skoraði sjö mörk fyrir Val, öll áður en hann varð 16 ára um haustið, og var markahæsti leikmaður liðsins. mbl.is/Árni Sæberg

Aðeins Eiður Smári Guðjohnsen og Þórarinn Kristjánsson voru yngri en Framarinn Viktor Bjarki Daðason þegar þeir skoruðu sitt fyrsta mark í efstu deild karla í fótbolta hér á landi á sínum tíma.

Viktor jafnaði fyrir Fram gegn Val á 90. mínútu á Hlíðarenda í gærkvöld, 1:1, fimmtán ára og 303 daga gamall, en hann verður 16 ára 30. júní. 

Eiður Smári var 15 ára og 252 daga gamall þegar hann skoraði fyrir Val gegn ÍBV á Hásteinsvelli 26. maí árið 1994, jöfnunarmark í leik sem endaði 1:1, og hann er enn þá sá yngsti sem hefur skorað í deildinni.

Viktor Bjarki Daðason eftir leikinn á Hlíðarenda í gærkvöld þegar …
Viktor Bjarki Daðason eftir leikinn á Hlíðarenda í gærkvöld þegar hann jafnaði á síðustu stundu fyrir Fram. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Eiður skoraði reyndar líka aftur í næsta leik, sigurmark gegn FH, 1:0, aðeins fimm dögum síðar, þannig að hann er í raun bæði yngstur og næstyngstur til að skora í deildinni!

Þórarinn Kristjánsson var 15 ára og 272 daga gamall þegar hann skoraði sigurmark Keflavíkur gegn ÍBV, 1:0, í lokaumferðinni árið 1996, þann 28. september. Þórarinn forðaði með því Keflavík frá falli, sendi Fylki niður í staðinn, og fékk fyrir vikið viðurnefnið „Bjargvætturinn“.

Síðasta haust lék Viktor Bjarki fyrstu leiki sína með Fram og varð þá fimmti yngsti leikmaðurinn til að spila í deildinni frá upphafi.

Patrick Pedersen skoraði mark Vals í leiknum við Fram og jafnaði þar með við bæði Guðmund Steinsson og Steven Lennon í fjórða sætinu yfir markahæstu leikmenn deildarinnar frá upphafi en hann er nú kominn með 101 mark eins og þeir. Patrick þarf 12 mörk til að ná Atla Viðari Björnssyni sem er sá þriðji markahæsti með 113 mörk.

Patrick Pedersen skoraði sitt 101. mark í deildinni gegn Fram.
Patrick Pedersen skoraði sitt 101. mark í deildinni gegn Fram. mbl.is/Árni Sæberg

Örvar Eggertsson, sóknarmaður Stjörnunnar, spilaði sinn 100. leik í deildinni í gærkvöld þegar Garðabæjarliðið vann Fylki 1:0. Þar af eru 45 leikir með HK, 36 með Víkingi R., 15 með Fjölni og nú fjórir með Stjörnunni.

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, tefldi fram óbreyttu byrjunarliði fjórða leikinn í röð gegn FH og er eini þjálfarinn í deildinni sem hefur enn enga breytingu gert frá fyrsta leik.

Finnur Orri Margeirsson, miðjumaðurinn reyndi hjá FH, varð sjötti leikmaðurinn í sögu deildarinnar til að spila 290 leiki þegar FH vann ÍA 2:1 á Akranesi. Hann vantar tvo leiki til að jafna við Daníel Laxdal úr Stjörnunni í fimmta sætinu en Daníel spilaði í gærkvöld sinn fyrsta leik með Garðabæjarliðinu á tímabilinu og er með 292 leiki.

Rúnar Már Sigurjónsson kom inn á sem varamaður hjá ÍA gegn FH og spilaði sinn fyrsta deildarleik hér á landi í ellefu ár. Síðast lék Rúnar með Val gegn Víkingi frá Ólafsvík á Hlíðarenda 15. júlí 2013 en sá leikur endaði 0:0. Eftir hann fór Rúnar í atvinnumennsku hjá Sundsvall í Svíþjóð og hefur leikið erlendis síðan.

Úrslit­in í 4. um­ferð:
Vestri - HK 1:0
ÍA - FH 1:2
Vík­ing­ur R. - KA 4:2
KR - Breiðablik 2:3
Val­ur - Fram 1:1
Fylk­ir - Stjarn­an 0:1

Marka­hæst­ir í deild­inni:
5 Vikt­or Jóns­son, ÍA
3 Danijel Dejan Djuric, Víkingi R.
2 Ari Sig­urpáls­son, Vík­ingi R.
2 Atli Sig­ur­jóns­son, KR
2 Benoný Breki Andrésson, KR
2 Jason Daði Svanþórsson, Breiðabliki
2 Kjartan Kári Halldórsson, FH
2 Nikolaj Hansen, Víkingi R.
2 Patrick Pedersen, Val

Næstu leik­ir:
4.5. FH - Vestri
5.5. KA - KR
5.5. Stjarnan - ÍA
5.5. HK - Víkingur R.
5.5. Fram - Fylkir
6.5. Breiðablik - Valur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert