Skrítið að mæta dótturinni

Gunnar þjálfari Fylkis
Gunnar þjálfari Fylkis Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Ég er bara fyrst og fremst ánægður með þessi þrjú stig,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Fylkis, eftir 4:2 sigur á Keflavík í Bestu deild kvenna í Árbænum í kvöld.  

„Þetta var erfiður leikur en samt svolítið skrítið að vinna 4:2 en margt sem mátti fara miklu betur,“ sagði Gunnar í viðtali við mbl.is.

Þú þekkir vel til í Keflavík, þjálfaðir liðið í 7 ár og átt dóttur (Sigurbjörg Diljá Gunnarsdóttir) í liðinu. Var ekki skrítin tilfinning að mæta þeim?

„Já það var mjög skrítið, ég þurfti að stilla hausinn minn vel af, þetta var óþægilegt en maður reyndi bara að stilla sig inn í þetta eins og hvern annan leik. Sérstaklega með það að dóttir manns er að spila, kornung og náði ég nú loks að sjá hana spila, er búinn að missa af fyrstu tveimur leikjunum hennar.“

Fylkiskonur fara næst norður í Skagafjörð og mæta Tindastóli.

„Það er bara það sama, það er næsti leikur, það eru allir leikir í þessari deild erfiðir,“ segir Gunnar að lokum, spurður um næsta leik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert