Arsenal vildi fá mig og Messi

Lionel Messi og Gerard Pique spiluðu saman í þrettán ár …
Lionel Messi og Gerard Pique spiluðu saman í þrettán ár með aðalliði Barcelona. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal um árabil, reyndi að fá bæði Gerard Piqué og Lionel Messi frá Barcelona árið 2004.

Þeir Piqué og Messi voru þá 17 ára gamlir og Messi var þá þegar orðinn stjarna hjá Barcelona en Piqué var bráðefnilegur varnarmaður í röðum félagsins.

Pique, sem lagði skóna á hilluna árið 2022  eftir að hafa leikið í fjögur ár með Manchester United og síðan fjórtán ár með Barcelona, skýrði frá þessu í hlaðvarpsþætti á BBC, Euro Leagues.

Arsenal krækti í Cesc Fabregas frá Barcelona árið 2003 og ári síðar reyndi Wenger að ná í þá Piqué og Messi.

„Wenger reyndi að fá mig sumarið sem ég fór til Manchester United en vildi ekki valda deilum við Barcelona eftir að hafa þegar sótt Fabregas þangað. Skyndilega kom Manchester United inn í myndina, ég fékk skýr skilaboð þaðan, og var fljótur að taka ákvörðun um að fara þangað.

Í kjölfarið vildi Wenger líka ná í Messi en hann átti aldrei möguleika á því," sagði Piqué í viðtalinu.

Þessir þrír efnispiltar áttu síðan eftir að gera garðinn frægan saman með Barcelona en Piqué náði aðeins að spila tólf leiki á þeim fjórum árum sem hann var í röðum Manchester United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert