Fékk tveggja mánaða skilorðsbundið bann

Sandro Tonali.
Sandro Tonali. AFP/Oli Scarff

Sandro Tonali, ítalski knattspyrnumaðurinn hjá Newcastle, hefur verið úrskurðaður í tveggja mánaða skilorðsbundið bann fyrir brot á reglum enska knattspyrnusambandsins um veðmál á leiki.

Tonali var fundinn sekur um fimmtíu brot á reglunum en hann er jafnframt sektaður um 20 þúsund pund.

Þar sem um skilorðsbundna refsingu er að ræða þarf hann aðeins að afplána hana ef hann brýtur af sér á keppnistímabilinu 2024-25.

Brotin áttu sér stað á síðasta ári, frá 12. ágúst til 12. október.

Tonali var í fyrra úrskurðaður í tíu mánaða bann fyrir að veðja á leiki á Ítalíu en hann hóf afplánun þess 27. október 2023 og má byrja að spila á ný í lok ágúst.

Tonali er 23 ára gamall miðjumaður sem hefur leikið 15 landsleiki fyrir Ítalíu. Hann kom til Newcastle frá AC Milan síðasta sumar fyrir 70 milljón evrur og hafði aðeins spilað átta úrvalsdeildarleiki fyrir enska liðið þegar hann fór í yfirstandandi keppnisbann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert