Íslandsmeistarar í þriðja sinn á fjórum árum

Leikmenn Hamars fagna í kvöld.
Leikmenn Hamars fagna í kvöld. Ljósmynd/Sigrún Kristjánsdóttir

Hamar tryggði sér í kvöld Íslandsmeistaratitil karla í blaki eftir sigur gegn Aftureldingu í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í Hveragerði.

Leiknum lauk með 3:1-sigri Hamars en Hamar vann einvígið 3:0 og stóð því uppi sem Íslandsmeistari í þriðja sinn á síðustu fjórum árum.

Hamar vann fyrstu hrinuna 25:16 en Afturelding jafnaði metin í annarri hrinu, 25:23. Hamar vann svo næstu tvær hrinur, 25:17 og 25:21, og fagnaði sigri í leikslok.

Rafal Berwald var stigahæstur hjá Hamri með 16 stig en Hafsteinn Már Sigurðsson var stigahæstur hjá Aftureldingu með 17 stig.

Hamar varð bæði bikar- og deildarmeistari á dögunum, fjórða árið í röð en liðið varð Íslandsmeistari árið 2021 og 2022. KA varð hins vegar Íslandsmeistari á síðustu leiktíð eftir sigur gegn Hamri í úrslitum Íslandsmótsins.

Afturelding var að leika til úrslita í karlaflokki í fyrsta sinn í sögu félagsins en félagið varð bikarmeistari árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert