Gargaði á okkur og við vöknuðum

Thea Imani Sturludóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir í skýjunum eftir …
Thea Imani Sturludóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir í skýjunum eftir leik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var skiljanlega kampakát eftir að lið hennar Valur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með 28:25-sigri á Haukum í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins á Hlíðarenda í kvöld.

„Tilfinningin er ótrúlega góð. Hún er ólýsanleg. Þetta er búið að vera svo langt tímabil og það er gott að enda þetta svona, með þremur titlum,“ sagði Þórey Anna í samtali við mbl.is eftir leik.

Valur byrjaði leikinn afar illa en eftir að Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari tók leikhlé í stöðunni 2:6 hristu Valskonur af sér slenið.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn var eins og við værum svolítið dofin í byrjun leiks. Hann gargaði á okkur og vakti okkur.

Það er kannski svolítið asnalegt að fara að mæta í úrslitaleik og vera ekki vakandi en það var allavega raunin í kvöld. Þá settum við í næsta gír og gerðum þetta almennilega,“ útskýrði hún.

Enginn einn með liðið á herðunum

Hvernig komist þið endurtekið yfir þessa hjalla í leikjum?

„Ég held að það sem einkennir okkar lið er að það er enginn með liðið á herðunum, enginn einn. Við spilum sem frábært lið og getum einhvern veginn alltaf leitað styrks í hverri annarri.

Það er það sem skilar okkur alltaf sigrum þegar allt kemur til alls, það er liðsheildin,“ sagði Þórey Anna.

Spurð hvernig Valur haldi alltaf dampi, sem hefur skilað sér í þremur titlum á tímabilinu og einungis einu tapi í öllum keppnum, sagði hún að lokum:

„Ég held að það sé bara hungrið. Aftur á móti komu alveg erfiðir tímapunktar þar sem var erfitt að mótivera sig en alltaf gerðum við það einhvern veginn. Við erum líka með frábært þjálfarateymi sem sér svolítið um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert