Rýfur þögnina um átökin á háskólasvæðunum

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti segist fordæma ofbeldi og rasisma á háskólasvæðum í Bandaríkjunum. Hann ítrekar þó rétt fólks til friðsamlegra mótmæla.

Þetta sagði hann í sjónvarpsávarpi í dag og rauf forsetinn þannig margra daga þögn sína um átökin sem hafa fylgt mótmælaöldu á háskólasvæðum Bandaríkjanna.

Mótmælin tengjast stríðsrekstri Ísraels á Gasaströndinni og hafa mótmælabúðir verið reistar á háskólasvæðum víða í Bandaríkjunum undanfarnar vikur. Hafa mótmælin vakið mikinn æsing í landinu.

Bandaríska dagblaðið New York Times greinir frá en Biden fordæmdi námsmenn og mótmælendur, sem höfðu að hans mati gengið of langt. Hann hafnaði hins vegar kröfu repúblikana um að senda þjóðvarlið til að hafa taumhald á mótmælendum.

Gyðingahatur eigi ekki heima í Bandaríkjunum

„Það er til réttur til mótmæla en ekki réttur til að valda óreiðu,“ sagði Biden en þetta var fyrst sinn í 10 daga sem hann talaði opinberlega um mótmælin. Á þessum tíma hafa átök milli mótmælenda, andmótmælenda og lögreglumanna færst í aukanna.

Lögreglumenn í óeirðabúnaði handtóku um 200 manns þegar þeir ruddu úr tjaldbúðum mótmælenda við UCLA. Aðrir lögreglumenn fjarlægðu fólk við mótmælasetu á bókasafni við Portland State-háskólann í Oregon í dag. 

„Fólk á rétt á að mennta sig, rétt á að fá prófgráðu, rétt á að ganga um skólasvæðið á öruggan hátt án þess að óttast að verða fyrir árás,“ sagði forsetinn og bætti við að gyðingahatur ætti ekki heima í Bandaríkjunum.

Mótmælendurnir hafa krafist þess að Bandaríkjastjórn hætti að færa Ísraelsmönnum vopn og að skólar þeirra slíti samstarfi við fyrirtæki sem tengjast Ísrael. Þó hafa mótmæli í mörgum tilfellum falið í sér rasíska orðræðu, að því er New York Times greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert