Er guð til? En djöfullinn? Kraftaverk?

Nýkjörinn biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir ræðir lífið og tilveruna ásamt trúnni í þætti dagsins. Hún tekur formlega við embætti í byrjun júlí en vígslan verður í september. Séra Guðrún trúir á kraftaverk og hefur orðið vitni að slíku. Þá vill hún efla þjóðkirkjuna og að allir sem eru í henni og að þessu fjölmennasta samfélagi landsins beri höfuðið hátt. Hún ætlar að færa biskupsembættið nær þjóðinni og ætlar sér að setja upp skrifstofu í hverjum landshluta í eina viku á hverju ári. Hún hleypur maraþon reglulega og hefur gaman af að prjóna og lesa glæpasögur.

Flottasta dánarbúið eða lifa og njóta?

Lífeyrir, ellilífeyrir, séreignarsparnaður og viðbótarlífeyrissparnaður. Allt eru þetta hugtök sem valda ólíkum hughrifum hjá okkur. Flest okkar munu þurfa að reiða sig á slíkar uppsafnaðar greiðslur á síðari hluta ævinnar. En hvenær á að hefja töku lífeyris og hvenær má vitja uppsafnaðra réttinda af þessu tagi? Björn Berg Gunnarsson, sjálfstætt starfandi fjármálaráðgjafi hefur sérhæft sig í þessum málum og fer hér yfir þá kosti sem í boði eru á hlaðborði lífeyrisréttinda. Sum þessara réttinda erfast á meðan að önnur eru hluti af samtryggingunni sem gagnast þeim sem kerfið okkar á að grípa. Björn Berg segir að mörgum sé umhugað um að tryggja sem best rétt afkomenda sinna á meðan að aðrir horfa til þess að njóta á meðan að heilsan leyfir. Ungt fólk í dag getur orðið vellauðugt ef það hugsar núna út í þessi mál og tekur ákvarðanir til framtíðar þar sem hámarkað er hverju verður safnað og hvernig, til efri áranna. Með því að kynna sér þessi mál er fólk án efa á besta tímakaupi sem því býðst á ævinni. Allt um lífeyrismál út frá forsendum lífeyrisþega í þætti dagsins.

Manndrápstíðni enn hvað lægst hér

Manndrápsmál á Íslandi eru afar fátíð miðað við það sem þekkist á Norðurlöndunum. Við erum á svipuðu róli og Noregur þegar horft er á mál miðað við fjölda íbúa. Guðbjörg S. Bergsdóttir er verkefnastjóri á gagnavísinda og upplýsingadeild hjá embætti ríkislögreglustjóra og hefur puttann á púlsínum þegar kemur að tölfræði yfir hvers konar afbrot framin eru hér á landi. Á tólf mánuðum hafa komið upp átta manndrápsmál og er upplifun margra að það séu tölur sem við höfum ekki séð áður. En það er ekki tilfellið. Guðbjörg rekur það í þættinum og upplýsir að við höfum áður þurft að horfa framan í fimm slík mál á einu ári. Hún fer yfir hvers eðlis þau manndrápsmál sem upp hafa komið á öldinni eru. Þarf engum að koma á óvart að karlmenn eru 90 prósent gerenda. Þá segir hún frá þolendakönnunum sem löreglan stendur fyrir þar sem meðal annars kemur í ljós að einungis 10 til 12 prósent kynferðisbrota eru tilkynnt og það þrátt fyrir mikla umræðu og vakningu í samfélaginu.

Leitaði sannleikans í fjöldagröfum

Svend Richter er einn reyndasti tannlæknir Íslands. Hann nam réttartannlæknisfræði og sú menntun leiddi hann á framandi og hryllilegar slóðir. Í Kósovó rannsakaði hann við þriðja mann fjöldagrafir eftir stríðsátökin í landinu í lok síðustu aldar. Þær rannsóknir fóru fram í skjóli Bandaríkjahers en á vegum Alþjóða stríðsglæpadómstólsins í Haag. Svend sá þar mörg dæmi um stríðsglæpi og hörmulegar aftökur barna og kvenna. Í fjöldagröfunum var oft búið að koma fyrir jarðsprengjum til að valda sem mestum skaða og drepa þá sem mögulega leituðu sannleikans. Hann var kvaddur á vettvang á hamfarasvæðið eftir flóðbylgjuna miklu sem skall á Tælandi á jólunum 2004. Hann segir þá reynslu jafnvel hafa verið hræðilegri en rannsóknir á fórnarlömbum stríðsátakanna á Balkanskaga. Svend Richter er gestur Dagmála í dag og ræðir ofangreinda atburði. En hann hefur víðar komið við sögu og hefur nýverið lokið störfum fyrir Kennslanefnd eftir 35 ára starf. Hann hefur ásamt fleirum annast aldursgreiningar á einstaklingum sem segjast vera börn við komu til Íslands í leit að skjóli eða hæli. Börn eiga skýran rétt samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar eru forsjárlaus á flótta. Barn er einstaklingur undir átján ára aldri. Við aldursgreiningar hefur komið í ljós að yfir áttatíu prósent þeirra sem segjast vera börn eru að segja ósatt. Það er sambærileg tala á við það sem þekkist í öðrum Evrópulöndum, í sambærilegum málum. Þá ræðir Svend hætturnar sem felast í tannlækningum í Austur-Evrópu og þær breytinar sem hafa orðið á faginu í hans tíð.