„Ég ætla aldrei aftur að prófa eitthvað nýtt“

Inga Lind Karlsdóttir kemst í jólaskap þegar börnin eru búin …
Inga Lind Karlsdóttir kemst í jólaskap þegar börnin eru búin að útbúa jólagjafalista. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Inga Lind Karlsdóttir, fjárfestir og eigandi framleiðslufyrirtækisins Skot, kemst í jólaskap um leið og börnin eru búin að setja saman jólagjafaóskalista. 

Hvað kemur þér í jólaskap?

„Myrkrið kemur mér í jólaskap. Æ styttri dagur er áminning um að jólin nálgast og þegar ég fer að sjá ljós í trjám borgarinnar birtir til í sálinni. Mér finnst líka jólalögin meiriháttar,“ segir hún.

Þegar Inga Lind er spurð út í jólahefðir sínar segir hún að þær séu svipaðar ár eftir.

„Við bökum alltaf súkkulaðibitakökur og piparkökur og þá helst í félagsskap góðra vina. Árni sker út nýjan spörfugl á hverju ári og við setjum negul í klementínur. Hrafnhildur gerir aðventukrans og Matthildur prjónar mikið í desember, í ár verða það hreindýrapeysur á hundana. Haukur skreytir alltaf jólatréð og Jóhanna fer snemma að sofa af því að jólasveinarnir koma enn heim til okkar. Arnhildur býr til piparkökuhús sem er ótrúlega flott eftirlíking af húsinu okkar. Svo fáum við möndlugraut hjá tengdamömmu,“ segir hún.

Jólaundirbúningur á heimili Ingu Lindar og Árna Haukssonar, eiginmanns hennar, byrjar þegar börnin eru klár með jólagjafalistana sína.

„Þá veit ég að ég þarf að fara að spýta í lófana.“

Jólamaturinn er stór hluti af jólunum. Inga Lind segist alveg hætt að prófa eitthvað nýtt.

„Ég ætla aldrei aftur að prófa eitthvað nýtt. Einu sinni eldaði ég akurhænur á aðfangadag og það er enn verið að kvarta. Og gera grín að mér. Þetta var fyrir tólf eða fimmtán árum. Við borðum bóg af svíni sem var einu sinni hamingjusamt, heimagert rauðkál og brúnaðar kartöflur. Byrjum oftast á humarsúpu og endum á einhverju sem við erum í stuði fyrir. Þessu skolum við niður með malti og appelsíni. Á jóladag er ég svo með hægeldað, tvíreykt hangilæri úr Reykhólasveit.“

Þegar Inga Lind er spurð að því hvað henni finnist best við jólin segir hún að það sé borða mikið, sofa mikið, lesa mikið og vera mikið með fólkinu sínu.

Nú ertu með fullt hús af börnum – hvað gerir þú til þess að börnin njóti sín sem best á aðventunni?

„Við gerum allt saman. Kveikjum á niðurtalningarkerti, höfum aðventukrans og skreytum smávegis, bökum saman, kaupum jólagjafir, förum á jólatónleika og á skíði og njótum lífsins með vinum og vandamönnum.“

Hvað er ómissandi um jólin?

„Lyktin af heimagerðu rauðkáli og hangikjöti, ný náttföt, jólatré, gömul jólalög, samvera og knús. Og kvikmyndin Love Actually.“

Áttu einhverja jólaminningu sem þú vilt deila með lesendum?

„Ég er lítil og sit alveg kyrr á stól, en dingla samt fótunum ofurlítið, á meðan ég horfi á sérvaldar teiknimyndir sem eru í sjónvarpinu um miðjan aðfangadag og mamma greiðir hárið á mér á meðan. Dásamleg sælu- og tilhlökkunarminning sem gleymist sennilega aldrei.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál