„Ég var yfirlýsingaglaður á þjóðhátíð“

Sigurður Bragason.
Sigurður Bragason. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjakonur eru komnar í sumarfrí eftir að hafa tapað undanúrslitaeinvíginu við Val 3:0 í Íslandsmóti kvenna í handbolta. Sigurður Bragason þjálfari ÍBV var að vonum svekktur með að liðið væri dottið út. Við ræddum við Sigurð strax eftir leik:

Fyrir tímabilið ætlaði ÍBV að verða Íslandsmeistari. Það gekk ekki. Ef þú ferð yfir tímabilið í heild sinni, hvernig gerir þú það upp?

„Við áttum okkar besta tímabil í mörg ár í fyrra með því að vinna tvo titla. Planið var að saxa á val á þessum tímabili. Fengum góða leikmenn til þess. Síðan hellist yfir okkur endalaust af meiðslum í október. Bjarney slítur hásin, Birna skemmir á sér hnéð og er að spila hér meidd. Svo kemur snemma í ljós að Hrafnhildur Hanna er illa meidd og náði aldrei að spila með okkur. Ég var yfirlýsingaglaður á þjóðhátíð og við ætluðum að vinna. 

Síðan bara erum við með ungar stelpur útaf meiðslum og erum að reyna halda sjó. Síðan endar þetta frábærlega hjá okkur. Við vinnum Fram og vinnum Hauka. En þetta er bara munurinn á Val og ÍBV núna. Ég hefði verið til í að taka undanúrslit á móti Haukum eða Fram.

Ef þú ert að tala um að hvernig ég meti þetta tímabil þá er stutta svarið að ég er leiður að við náðum ekki að byggja ofan á síðasta tímabil en glaður yfir að koma ungum stelpum inn. Við reynum bara aftur næsta ár.“

Verður þú áfram þjálfari ÍBV og verða einhverjar breytingar á leikmannahópnum?

„Já ég þjálfa áfram. En já við erum að missa stelpur sem er glatað því maður er alltaf að byggja upp nýtt lið. Ég missti 10 stelpur í fyrra. Núna er ég að missa 5. Amelía, Elísa, Þóra eru allar að fara í skóla. Síðan verða einhverjar aðrar breytingar en við fáum bara aðrar í staðinn. Gamli kjarninn verður samt áfram."

Er komið markmið hjá ÍBV fyrir næsta tímabil?

„Sigur,“ sagði Sigurður í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert