Í banni í Eyjum

Jakob Martin Ásgeirsson í leik með FH.
Jakob Martin Ásgeirsson í leik með FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jakob Martin Ásgeirsson, hornamaður deildarmeistara FH í  handknattleik, hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann og tekur af þeim sökum ekki þátt í fjórða leik liðsins gegn ÍBV í undanúrslitum Íslandsmótsins í Vestmannaeyjum á morgun.

Vinstri hornamaðurinn Jakob Martin fékk beint rautt spjald í þriðja leik liðanna í Kaplakrika á sunnudag fyrir að fara af afli með höndina í andlit Elmars Erlingssonar, leikstjórnanda ÍBV.

Samkvæmt úrskurði aganefndar er það til skoðunar að Jakob Martin fái lengra bann en að á meðan það sé metið sé hann úrskurðaður í eins leiks bann.

Er þetta í annað sinn á tímabilinu sem Jakob Martin er úrskurðaður í leikbann.

Úrskurður aganefndar:

„Jakob Martin Ásgeirsson leikmaður FH hlaut útilokun með skýrslu vegna sérstaklega hættulegrar aðgerðar í leik FH og ÍBV í úrslitakeppni Olís deild karla þann 28.04.2024. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:6 a). Er það mat aganefndar, með vísan til skýrslu dómara, að brotið kunni að verðskulda lengra bann en 1 leik.

Með tilvísun til 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður strax í eins leiks bann en málinu að öðru leiti frestað um sólarhring til að gefa félaginu færi á að skila athugasemdum sínum til skrifstofu HSÍ fyrir kl.12.00, þriðjudaginn 30. apríl með tilvísun í 3.gr ofangreindar reglugerðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert