Grindavík sterkari í fyrsta leik

Daniel Mortensen í baráttunni við Danero Thomas í Smáranum í …
Daniel Mortensen í baráttunni við Danero Thomas í Smáranum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Grindavík hafði betur gegn Keflavík, 102:94, í æsispennandi fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla í Smáranum í Kópavogi í kvöld.

Grindavík er því komin í 1:0 í einvíginu. Annar leikur liðanna fer fram í Keflavík næstkomandi laugardagskvöld, þann 4. maí.

Fyrri hálfleikur var hnífjafn. Grindvíkingar  voru ögn sterkari í fyrsta leikhluta og náðu mest sex stiga forskoti, 21:15, áður en Keflavík jafnaði í 21:21.

Grindavík tók aftur vel við sér og var þremur stigum yfir, 26:23, að fyrsta leikhluta loknum.

Keflavík hóf annan leikhluta af feikna krafti og var komið átta stigum yfir, 31:39, þegar hann var tæplega hálfnaður. Grindavík var þó fljót að svara og minnkað muninn snögglega niður í aðeins eitt stig, 38:39.

Liðin skiptust í kjölfarið á að ná naumu forskoti og virtist sem Keflavík ætlaði að fara með eins stigs forskot í hálfleik í stöðunni 53:54.

Svo fór hins vegar ekki þar sem DeAndre Kane skoraði hreint magnaða þriggja stiga flautukörfu fyrir Grindavík. Ólafur Ólafsson fyrirliði átti þá stórkostlega sendingu langt fram völlinn þegar 0,6 sekúndur voru eftir á leikklukkunni.

Kane tók við boltanum í snúinni stöðu en þó ekki ómögulegri, skaut í litlu jafnvægi en boltinn fór af spjaldinu og í körfuna við mikinn fögnuð Grindvíkinga, sem leiddu 56:54 í hálfleik.

Sjóðheitur Martin fór meiddur af velli

Keflvíkingar urðu fyrir miklu áfalli þegar annar leikhluti var tæplega hálfnaður þegar Remy Martin var borinn meiddur af velli og tók ekki frekari þátt í leiknum eftir að hafa farið á kostum með  18 stig, fjögur fráköst og þrjár stoðsendingar á aðeins 11 mínútum.

Að missa Martin gerði Keflvíkingum erfiðara um vik í sóknarleiknum og voru Grindvíkingar sterkari í þriðja leikhluta.

Heimamenn komust nokkrum fimm stigum yfir en þrátt fyrir að fá nokkrum sinnum tækifæri til þess að auka forskot sitt enn frekar tókst Grindvíkingum það ekki.

Staðan að leikhlutanum loknum var 77:72, Grindavík í vil.

Kane rekinn út úr húsi

Fjórði leikhluti hófst með versta móti fyrir Grindvíkinga þegar Kane fékk dæmda á sig tæknivillu fyrir leikaraskap og var rekinn út úr húsi.

Keflavík nýtti sér þá sókn með því að skora úr einu vítaskoti auk þess sem Marek Dolezaj setti niður þriggja stiga körfu. Keflavík skoraði einnig í næstu sókn og var skyndilega komin með forskot, 77:78.

Í kjölfarið var allt í járnum þar sem liðin skiptust á að ná naumu forskoti auk þess sem staðan var nokkrum sinnum jöfn.

Undir blálokin tókst Grindavík aftur að ná undirtökunum er liðið komst fimm stigum yfir á ný, 96:91, og hafði að lokum sterkan átta stiga sigur.

Stigahæstur þrátt fyrir að spila lítið

Stigahæstir í leiknum voru Kane og Basile með 24 stig hvor fyrir Grindavík.

Kane tók auk þess sjö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar og Basile tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Martin var stigahæstur hjá Keflavík þrátt fyrir að spila aðeins 11 mínútur. Jaka Brodnik bætti við 16 stigum.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Grindavík 102:94 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert