Slagur Íslands- og bikarmeistara í kvöld

Sigdís Eva Bárðardóttir og Hailey Whitaker í leik Víkings og …
Sigdís Eva Bárðardóttir og Hailey Whitaker í leik Víkings og Vals í Meistarakeppninni þar sem leikið var í hálfgerðu vetrarveðri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmeistarar mæta bikarmeisturum í kvöld þegar þrír leikir fara fram í þriðju umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta.

Íslandsmeistarar Vals fá bikarmeistara Víkings í heimsókn í Reykjavíkurslag á Hlíðarenda klukkan 18. Liðin mættust í Meistarakeppni KSÍ á sama stað rétt áður en Íslandsmótið hófst og þá sigruðu Víkingkonur í vítaspyrnukeppni eftir að leikurinn endaði 1:1.

Bæði lið eru ósigruð í Bestu deildinni en Valskonur eru með sex stig eftir tvo sigurleiki gegn Þór/KA og Þrótti og nýliðar Víkings eru með fjögur stig eftir sigur á Stjörnunni og jafntefli við Fylki.

Á Akureyri hefst viðureign Þórs/KA og Þróttar klukkan 18 í Boganum en grasvöllur  Þórs er ekki tilbúinn  til notkunar. Þór/KA er með þrjú stig eftir sigur á FH en Sandra María Jessen hefur skorað öll fimm mörk Akureyrarliðsins til þessa. þróttarkonur eru með eitt stig eftir tap gegn Val og jafntefli gegn Fylki.

Loks mætast Fylkir og Keflavík í Árbænum klukkan 19.15 en bæði lið eru á höttunum á eftir sínum fyrsta sigri. Nýliðar Fylkis eru með tvö stig eftir jafnteflisleiki gegn Þrótti og Víkingi en Keflavíkurkonur hafa tapað báðum sínum leikjum, gegn Breiðabliki og Stjörnunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert