9 ára og neitar að sofa í eigin rúmi

9 ára gömul stúlka vill ekki sofa í sínu rúmi. …
9 ára gömul stúlka vill ekki sofa í sínu rúmi. Hvað er til ráða? Gabriel Baranski/Unsplash

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda. Hér fær hún spurningu frá foreldri sem er í baráttu við dóttur sína því hún neitar að sofa í eigin rúmi. 

Sæl Tinna. 

Dóttir okkar sem er 9 ára neitar að sofa í sínu rúmi, sefur alltaf upp í hjá okkur sem er varla hægt lengur þar sem hún er orðin svo stór. Kvöldin eru alltaf eilíf barátta, við foreldrarnir að reyna að fá hana til þess að sofa í sínu rúmi en hún fer bara að hágráta, svo við látum undan og leyfum henni að vera uppí hjá okkur.

Ertu með einhver ráð fyrir okkur?

Kveðja, 

BN

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda.

Sæl og blessuð. 

Þessi vandi er algengur hjá börnum sem glíma við einhverskonar kvíða. Fyrst af öllu myndi ég reyna að komast að því hvers vegna hún vill ekki sofa í sínu rúmi. Er það vegna þess að hún óttast það að vera ein og ekki með ykkur foreldrum eða óttast það að hún geti ekki sofnað? Eða eitthvað annað sem vekur hjá henni ótta?

Þá er nauðsynlegt að ræða við hana um kvíðahugsanir hennar, hjálpa henni að afla upplýsinga, finnst oft gott að setja þetta í samlíkingu um að nú ætlum við að hugsa eins og „einkaspæjari“ og rannsaka málið. Er raunveruleg hætta á ferðum? Er líklegt að það sem hún óttast að gerist muni raunverulega gerast? Hefur það gerst áður? Því næst þarf að setja upp markmið sem þið viljið að hún nái t.d. „Að sofa ein í mínu herbergi alla nóttina í heila viku“ og það þarf að búta það markmið niður í smærri skref (þrepaskipta) setja upp í kvíðastiga þar sem við byrjum á auðveldasta þrepinu og endum á lokaþrepinu (lokamarkmiðinu).

Hún þarf að fá umbun eftir hvert einasta þrep og nauðsynlegt að ræða við hana um hvað er eftirsóknarvert í hennar augum sem umbun. Mæli með bókinni Hjálp fyrir kvíðin börn er þar á blaðsíðu 243 er dæmi um góða þrepaskiptingu varðandi það að æfa sig að sofa í sínu eigin rúmi. Einnig er bókin Hvað get ég gert við of miklar áhyggjur mjög góð þegar verið er að útskýra fyrir börnunum hvað kvíði er og hvernig þau geta æft sig að skora kvíðapúkann á hólm. Oft getur einnig verið árangursríkt að leita til sálfræðings með barnið til að vinna með þennan vanda, oft þarf ekki nema nokkra viðtalstíma til að hjálpa barninu að ná tökum á kvíðahugsunum sínum og æfa sig í að sofa í sínu eigin rúmi.

Vonandi hjálpaði þetta eitthvað!

Gangi ykkur sem allra best.

Bestu kveðjur,

Tinna

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert