Flugáætlanir kunna að taka breytingum

FFR og sameyki hafa boðað til verkfalla.
FFR og sameyki hafa boðað til verkfalla. mbl.is/​Hari

Isavia gerir ráð fyrir því að flugáætlunum verði breytt ef af verkfalli starfsfólks Sameykis og FFR verður.

Boðað hefur verið til verkfallsaðgerða þann 8. maí og munu þær standa hluta úr degi á vissum dagsetningum til 20. maí. 

Isavia vonast þó til þess að deiluaðilar verði búnir að ná saman áður en til verkfallsaðgerða kemur, að því er fram kemur í skriflegu svari frá upplýsingafulltrúa Isavia. 

Kunni að taka breytingum 

„Hvað varðar hreyfingar (brottfarir og lendingar) á þeim tíma sem aðgerðir munu standa, ef af verður, þá eru flugáætlanir flugfélaga á Keflavíkurflugvelli birtar á vef Keflavíkurflugvallar, kefairport.is, og uppfærðar þar af flugfélögunum sjálfum,“ segir í skriflegu svari upplýsingafulltrúans Guðjóns Helgasonar.

Gera má ráð fyrir að þær áætlanir kunni að taka breytingum ef til aðgerða kemur.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia. Ljósmynd/Aðsend

Öryggisleit og rútuflutningar

Hann segir jafnframt að verið sé að fara yfir það hvaða störf verða lögð niður og hvaða áhrif það mun hafa á Keflavíkurflugvelli. 

Fyrir liggur að FFR og Sameyki hafa boðað að starfsfólk í öryggisleit og farþegaflutningum (þ.e. rútuflutningum farþega út í flugvél) leggi niður vinnu tímabundið á afmörkuðum tímum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert