Landsvirkjun, ESB og dauðarefsing

Frá fyrstu kappræðum kosninganna þar sem allir frambjóðendur komu fram.
Frá fyrstu kappræðum kosninganna þar sem allir frambjóðendur komu fram. mbl.is/Arnþór

Forsetaframbjóðendurnir tólf sátu fyrir svörum í kappræðum í ríkissjónvarpinu í kvöld.

Þegar tal barst að málskotsrétti forseta kváðust allir tilbúnir að beita honum með einum eða öðrum hætti ef aðstæður byðu upp á það. 

Flestir nefndu mál er snúa að grundvallargildum mannréttinda, auðlindamál eða ef reynt væri að gera afgerandi breytingar á fullveldi landsins.

Landsvirkjun, lagareldi og kynhneigð

Katrín Jakobsdóttir nefndi sem dæmi ef ráðist yrði í sölu Landsvirkjunar, eða ef Alþingi myndi ákveða að ganga í Evrópusambandið án þess að ráðfæra sig við þjóðina.  

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir nefndi lagareldi sem hefur verið til umræðu í þinginu upp á síðkastið. Telur hún slíkt vera tilvalið að senda fyrir þjóðina. 

Jón Gnarr nefndi að ef Ísland myndi brjóta á mannréttindum þannig að hér yrði tekin upp dauðarefsing til að mynda, eða ef fólki yrði mismunað eftir kynhneigð.

Frambjóðendur áður en útsending hófst.
Frambjóðendur áður en útsending hófst. mbl.is/Arnþór

Hlutfall, bókun 35 og kaup á vopnum 

Viktor Traustason nefndi að ef 10% landsmanna myndu mótmæla ákveðnum málum, þá myndi hann setja þau í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Arnar Þór Jónsson nefndi dæmi um bókun 35, sem snúi að því að reglur Evrópusambandsins verði ofar íslenskum reglum sem hann telur ekki standast stjórnarskrá.

Ásdís Rán nefndi kaup á vopnum eða sölu ríkisfyrirtækja sem dæmi um mál sem tilvalið yrði að senda til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ásdís Rán var tilbúin í upphafi kvölds.
Ásdís Rán var tilbúin í upphafi kvölds. mbl.is/Arnþór

Útlendingalög, ESB og orkuinnviðir 

Ástþór Magnússon sagði að útlendingalög sem samþykkt voru árið 2016 hafi verið dæmi um löggjöf sem hann teldi að betra hefði verið að vísa til þjóðarinnar. Sagði hann útlendinga hafa fengið meiri rétt en Íslendinga með löggjöfinni.

Baldur Þórhallsson nefndi sem dæmi ef þingið myndi ákveða að ganga í ESB án þess að þjóðin kæmi þar að.

Eiríkur Ingi Jóhannsson nefndi dæmi um orkuinnviði og vatnsauðlindir. Ef slíkt myndi vera selt ætti að vísa því til þjóðarinnar.

Evrópusambandið, Icesave og auðlindir 

Halla Hrund Logadóttir nefndi orkuinnviði en sagði að afar sérstakar aðstæður myndi þurfa til. Nefndi hún einnig Evrópusambandið og kvaðst horfa til framsals auðlinda og mannréttindabrota.

Halla Tómasdóttir sagði að hlusta bæri á þjóðina og henni þætti líklegt að í sínu tilfelli myndu málin snúa að mannréttindum og hlutum sem hafa áhrif á komandi kynslóðir. Nefndi hún Icesave sérstaklega sem dæmi um mál sem tilvalið hefði verið að bera undir þjóðina.

Helga Þórisdóttir sagði að málskotsrétturinn gæti verið nýttur þegar kemur að auðlindum landsins, mannréttindum eða framsali valds landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert