Myndskeið: Laus farmur hefði getað valdið stórslysi

Þórður kveðst ánægður að hafa verið á bíl en ekki …
Þórður kveðst ánægður að hafa verið á bíl en ekki mótorhjóli er sófinn fauk í áttina að honum. Skjáskot

„Ég hefði ekki viljað vera á mótorhjólinu í þessari stöðu, þá hefði maður heldur betur dottið á hausinn,“ segir Þórður Bogason sem varð fyrir því óþægilega atviki að laus farmur á kerru flaug í áttina að honum á Reykjanesbrautinni í gær.

„Ég var á leiðinni úr Njarðvík í bæinn þegar þessi bíll færir sig yfir á vinstri akrein til að taka fram úr flutningabílnum. Svo þegar hann er að verða búinn að taka fram úr þá kom þetta allt saman æðandi á móti manni,“ segir Þórður í samtali við mbl.is.

Þórður, sem sjálfur er ökukennari, segir atvikið góða áminningu um að ávallt skuli festa farm tryggilega áður en ekið er af stað.

Eigendur sófans miður sín

Um var að ræða sófasett sem ekki hafði verið fest aftan á kerru á fólksbifreið. Segir Þórður að sem betur fer hafi harðasti hluti sófans fokið út af veginum en hann hafi náð að sveigja framhjá því sem fylgdi.

Hann segir ökumanninn og farþega hafa keyrt út í vegkant en hann hafi einnig sjálfur keyrt út í kant til að eiga orð við þau. 

„Ég stoppaði til að tala við þau og þau fóru síðan og hreinsuðu þetta upp. Þau voru náttúrulega miður sín yfir þessu.“

Fólk átti sig ekki á vindkraftinum

Segir Þórður allt of algengt að fólk festi ekki farminn hjá sér nægilega vel eða bara alls ekki. Kveðst hann sjálfur brýna vel fyrir sínum nemendum í ökukennslunni að ávallt skuli festa farminn því sama hversu varlega fólk fari geti hlutirnir endað illa.

Mikilvægt sé að festa farminn en einnig að halda góðu bili og fylgjast vel með.

„Fólk gleymir sér í smá stund, ætlar kannski að fara varlega en svo breytast vindarnir bara. Fólk áttar sig ekki á því hvað þetta eru miklir kraftar, þegar þú ert kominn á 80 kílómetra hraða.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert