Vatnspósturinn verið laskaður síðustu 25 ár

Bæði brunnurinn og vatnspósturinn hafa látið á sjá síðustu ár.
Bæði brunnurinn og vatnspósturinn hafa látið á sjá síðustu ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta hefur verið hugðarefni mitt mjög lengi og ég er bjartsýnn á framgang málsins,“ segir Stefán Pálsson, sagnfræðingur og fulltrúi Vinstri grænna í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar.

Á síðasta fundi ráðsins lagði Stefán fram tillögu um að Borgarsögusafni verði falið að endurgera gamla vatnspóstinn í Aðalstræti og koma honum í viðunandi horf.

Í greinargerð Stefáns með tillögunni er rakið að í ár séu 180 ár liðin frá því að þá eina starfandi prentsmiðja landsins var flutt úr Viðey og til Reykjavíkur í tengslum við endurreisn Alþingis. Í tengslum við prentsmiðjuna hafi þurft að stækka aðalvatnsból Kvosarinnar og var settur á það vatnspóstur, sem almennt var kallaður „Prentsmiðjupósturinn“.

„Þetta var lengi aðalvatnsból Reykvíkinga og þarna skiptust þeir á kjaftasögum og fréttum,“ segir Stefán við Morgunblaðið. Hann segir að gamli Prentsmiðjubrunnurinn hafi verið grafinn út að nýju á níunda áratug síðustu aldar, á hann settur gegnsær plasthleri, lýsing útbúin í brunninum og komið upp vatnspósti með handdælu í nítjándu aldar stíl.

„Þetta var í tengslum við 200 ára afmæli Reykjavíkur árið 1986 en á þeim árum var mikil vakning varðandi eitt og annað í sögu Reykjavíkur,“ segir Stefán ennfremur. Vatnspósturinn þótti setja skemmtilegan svip á götumyndina árin þar á eftir en bæði brunnurinn og vatnspósturinn hafa látið mjög á sjá síðustu ár.

Gauðryðgaður og skellóttur

„Lýsingin hefur að mestu eða öllu leyti geispað golunni, plasthlerinn er svo máður að erfitt er að horfa í gegnum hann, auk þess sem móða situr sífellt á innanverðum hleranum. Vatnspósturinn sjálfur er gauðryðgaður og skellóttur,“ segir í greinargerðinni. Stefán segir að fyrir um 25 árum hafi svo armurinn verið sagaður af sjálfum vatnspóstinum.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert