Enginn tími til að hemla

Zak og Elliot sjást hér á ferðalagi rétt áður en …
Zak og Elliot sjást hér á ferðalagi rétt áður en slysið varð. Nú liggur Elliot enn á spítala en er á batavegi.

Zak Nelson og unnusti hans Elliot Griffiths frá Bretlandi voru nýlagðir af stað í langþráð ferðalag á Íslandi þegar ógæfan dundi yfir. Bíll fór yfir á rangan vegarhelming og skall á bíl parsins með þeim afleiðingum að Elliot slasaðist alvarlega og hefur þurft á aðgerðum að halda vegna innvortis meiðsla. Zak, sem slapp mun betur, settist niður með blaðamanni og sagði sögu sína.

Á röngum vegarhelmingi

Parið lenti á Íslandi 19. apríl og hélt beint af stað á bílaleigubíl austur. Planið var að skoða Kerið, Geysi, Seljalandsfoss og Skógafoss þennan fyrsta dag af fjórum.

„Við áttum að fara heim 23. apríl því Elliot vildi halda upp á 26 ára afmælið sitt heima,“ segir Zak og segir þá hafa verið búna að skoða Kerið og Geysi og voru á leiðinni að Seljalandsfossi þegar slysið varð.

„Við vorum á austurleið þegar bíll fór yfir á rangan vegarhelming, mögulega að taka fram úr. Það voru aðeins um hundrað metrar á milli bílanna og ég hafði engan tíma til að hemla eða öskra. Aðeins að reyna að sveigja frá,“ segir Zak og segir bílana hafa skollið saman harkalega.

Bíllinn er gjörónýtur eftir slysið. Mesta furða er að enginn …
Bíllinn er gjörónýtur eftir slysið. Mesta furða er að enginn lét lífið.

„Ég var undir stýri og það eina sem ég náði að hugsa var að reyna að sveigja frá, en það var enginn tími.“

Viltu giftast mér? 

„Bílbeltin björguðu lífi okkar; okkur hefur verið sagt það. Við vorum með mikið mar þar sem beltin voru,“ segir Zak og segir hvorugan þeirra hafa vitað hversu slasaðir þeir voru í upphafi.

„Ég man ekki mikið, en mér fannst allt gerast svo hratt en í raun leið nokkur tími þar til ég var kominn í sjúkrabíl, en Elliot fór í sjúkrabíl á undan mér. Elliot man aðeins meira en ég og ég á víst að hafa sagt við hann: „Þar fór tryggingin fyrir bílnum“ og svo: „Nú er fríið ónýtt.“ Hann sagði líka að ég hefði verið afar rólegur þegar ég sagði við hann að ég þyrfti að taka af mér bílbeltið og ég myndi detta á hann en ég myndi reyna að gera það varlega,“ segir Zak.

Sjúkrabílarnir fluttu mennina á slysadeild og var Elliot fljótlega settur í aðgerð vegna innvortis meiðsla.

Elliot bar upp bónorð á spítalanum stuttu eftir slysið og …
Elliot bar upp bónorð á spítalanum stuttu eftir slysið og Zak var fljótur að svara því játandi.

„Ég man ekki mikið frá fyrstu stundunum á spítalanum en man að ég bað um að fá að sjá Elliot, en ég heyrði í rödd hans. Mér var þá rúllað í rúminu til hans þar sem hann var. Það var svo mikill léttir að sjá að hann var á lífi. Þá heilsaði hann mér og sagði: „Viltu giftast mér?“ Ég svaraði strax: „Auðvitað!“ Svo var honum rúllað beint á skurðarborðið,“ segir Zak og frétti síðar að þarmar hefðu farið í sundur og komið var drep á vissum stöðum.

Trúlofunin það jákvæða

Áfallið að lenda í slysi er mikið og getur tekið tíma að vinna úr því. Zak segir þá báða hafa spurt sig „hvað ef?“

„Við höfum velt fyrir okkur, hvað ef við hefðum ekki stoppað í sjoppu og fengið okkur pulsu; hvað ef við hefðum lagt á öðrum stað við Geysi? Það er svo margt sem leiðir okkur í slysið. Það hljómar kjánalega en þetta átti að gerast. Við erum trúlofaðir og erum ánægðir með að eitthvað jákvætt kom út úr þessu því við værum ekki trúlofaðir ef þetta hefði ekki gerst. Ég er ekki glaður að þetta gerðist, auðvitað ekki, en vonandi nær Elliot sér að fullu og þá kom eitthvað gott úr þessu,“ segir Zak og segist strax vera farinn að skipuleggja brúðkaupið.

„Batinn eftir seinni aðgerðina getur tekið margar vikur og við viljum auðvitað frekar vera heima hjá okkar fólki,“ segir hann og segist enn ekki vita hvenær það geti orðið.

Viljum koma aftur seinna

Zak segist afar þakklátur að þeir séu báðir á lífi; það sé fyrir mestu. Íslandsferðin fór sannarlega öðruvísi en lagt var upp með, en þeir unnustar hyggjast koma aftur.

Zak bíður nú eftir að þeir Elliot komist heim heim …
Zak bíður nú eftir að þeir Elliot komist heim heim með sjúkraflugi.

„Við erum farnir að ræða um að koma aftur hingað eftir nokkur ár og sjá landið saman. Elliot er búinn að vera innilokaður á spítala allan tímann,“ segir Zak.

„Nú hlökkum við til að fara heim til Norwich og sofa í eigin rúmi og hitta kettina okkar. Og byrja lífið okkar saman.“

Ítarlegt viðtal er við Zak í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert