„Bíð bara eftir að það fari að gjósa aftur“

Hafþór Skúlason, starfsmaður Golfklúbbs Grindavíkur.
Hafþór Skúlason, starfsmaður Golfklúbbs Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmenn Húsatóftavallar í Grindavík voru á fullu við undirbúning á opnum golfvallarins, sem verður á laugardaginn, þegar ljósmyndari og blaðamaður mbl.is litu við á vellinum í dag.

„Við erum bara í vorverkunum og erum að gera allt klárt fyrir opnun vallarins,“ segir Hafþór Skúlason, starfsmaður Golfklúbbs Grindavíkur, sem tók sér smá pásu frá sláttuvélinni á iðagrænum Húsatóftavelli til að ræða við blaðamann.

Aldrei séð hann svona góðan á þessum árstíma

Golfvöllurinn verður opnaður fyrir klúbbmeðlimi í Golfklúbbi Grindavíkur á laugardaginn en síðar fyrir almenning. Ekki er hægt að segja annað en að golfvöllurinn líti ansi vel út.

„Völlurinn lítur afar vel út og ég held að ég hafi aldrei séð hann svona góðan á þessum árstíma,“segir Hafþór. 

Kylfingum verður ekki hleypt inn á brautir 13-18 á bökkunum fyrir neðan veginn til að byrja með þar sem þarf að gera lagfæringar eftir jarðhræringarnar í nóvember en völlurinn er í góðu standi á hinum brautunum.

Húsatóftavöllur í Grindavík lítur ansi vel út og verður golfvöllurinn …
Húsatóftavöllur í Grindavík lítur ansi vel út og verður golfvöllurinn opnaður fyrir meðlimi golfklúbbsins á laugardaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það myndaðist smá sprunga á 10. brautinni sem hefur í sjálfu sér engin áhrif en aðrar sprungur á vellinum eru ekki nýjar. Það er bara framlenging af eldri sprungum sem eru orðnar sýnilegri,“ segir Hafþór, sem reiknar með að fjölmargir kylfingar úr klúbbnum mæti á laugardaginn og mundi kylfur sínar en golfklúbburinn telur nú um 350 meðlimi.

Orðinn þreyttur á endalausum rýmingum

Spurður hvort honum finnist óþægilegt að vinna á vellinum við þær aðstæður sem eru til staðar í og kringum Grindavík segir Hafþór:

„Nei engan veginn. Mér finnst vera búið að ofgera þessu ástandi. Ég bíð bara eftir að það fari að gjósa aftur þannig að maður geti farið að gista aftur í bænum. Ég er orðinn þreyttur á þessum endalausu rýmingum.“

Hafþór er Grindvíkingur en býr eins og er á Selfossi. Hann segist enn sjá fyrir sér framtíðina í Grindavík.

„Vissulega er þetta hundleiðinlegt ástand. Ég er með leiguíbúð á Selfossi sem ég nota á milli gosa en er svo mættur aftur í Grindavík um leið og færi gefst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert