Sigurður Orri fjölmiðlamaður býður upp á vikumatseðilinn

Sigurður Orri Kristjánsson matgæðingur á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu …
Sigurður Orri Kristjánsson matgæðingur á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni sem eru hinn girnilegasti. Ljósmynd/Aðsend

Sigurður Orri Kristjánsson matgæðingur með meiru býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni. Hann er starfsmaður stjórnmálaflokksins Viðreisnar en einnig er hann útvarps- og sjónvarpsmaður hjá Stöð 2 sport og  útvarpsmaður á X977 þar sem íþróttalýsingar fyrirferðamiklar. Þá er hann líka mikill gleðigjafi og spilar á gítar og syngur í hinum ýmsu veislum, brúðkaupum og afmælum. Sigurður lærði handabrögðin í eldhúsinu mest af Láru systur sinni sem hefur búið á Spáni í á annan áratug og Láru móður sinni. „Þær  eru báðar miklir ástríðukokkar og hafa verið með ólíkindum þolinmóðar í sýnikennslu og leiðbeiningum í gegnum tíðina,“ segir Sigurður með bros á vör.

Bjó í París, Montpellier og Cannes

Sigurður hefur alla tíð haft áhuga á mat og matargerð. Mataráhugi hans er mjög miðaður að Miðjarðarhafinu enda hefur hann búið í þremur borgum í Frakklandi, París, Montpellier og Cannes. Hann hefur líka ferðast mikið um löndin í sunnanverðri Evrópu. Áherslan er á einfalda rétti, fersk hráefni og að aðalinnihaldsefnin fái að vera stjörnurnar á disknum. 

„Nú þegar er farið að vora og sumarið er vonandi að fara að láta sjá sig þá verður maturinn yfirleitt aðeins léttari, léttara prótín eins og skelfiskur eða rækjur og árstíðabundið grænmeti eins og ferskur aspas, sem er á næsta leiti. Ég trúi því að matur eigi að vera á bragðið eins og hann á að vera á bragðið og nota þess vegna ekki mikið af sterkum kryddum, nema þau séu til þess að lyfta matnum á næsta stig,“ segir Sigurður.

Miklar annir hafa verið síðustu vikur og mánuði hjá Sigurði og hann er með marga bolta á lofti. „Undanfarið hefur verið mikið að gera í vinnunni, bæði á vor- og sumarþingi og svo eru úrslitakeppnirnar farnar á fullt í körfuboltanum bæði hér og vestanhafs svo ég er mikið í stúdíóinu. Þá er gott að skipuleggja sig með næringarríkan mat í huga enda dagarnir langir. Það eru bestu stundir dagsins þegar það myndast smá tími og ég get leyft mér að dunda mér í eldhúsinu með góða músík á, til dæmis kúbverska tóna að hætti Compay Segundo.” 

Mánudagur – Bleikja með kryddjurtasalati

„Á mánudögum er flott að vera með fisk og þar er bleikjan í sérstöku uppáhaldi. Ég er hrifnari af silungi en laxi og þessi réttur getur ekki klikkað.“

Bleikja borinn fram með kryddjurtasalati.
Bleikja borinn fram með kryddjurtasalati. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þriðjudagur – Bláskel í hvítvíni með hvítlauk

„Ég lærði á uppvaxtarárunum í Stykkishólmi að borða bláskel og annan skelfisk. Þessi réttur er þægilegur í eldun og algerlega frábær á bragðið.“

Girnileg bláskel í hvítvíni með hvítlauk.
Girnileg bláskel í hvítvíni með hvítlauk. Ljósmynd/Snorri Guðmundsson

Kræklingur í hvítvíni

Fyr­ir 4

  • 2,5 kg kræk­ling­ur
  • 4 stk. skalotlaukar
  • 6 stk. hvít­lauks­geir­ar
  • 3 dl ólífu­olía
  • 3 dl hvít­vín
  • 4 dl rjómi
  • Salt og pip­ar eftir smekk

Aðferð

  1. Hreinsið kræk­lings­skelj­arn­ar vel.
  2. Afhýðið skalotlauka og hvít­lauks­geira, skerið smátt og setjið út í ol­í­una. Hitið ol­í­una á djúpri pönnu eða í potti.
  3. Setjið kræk­ling­ana út í og látið krauma vel.
  4. Hellið hvít­víni og rjóma á pönn­una og látið suðuna koma upp.
  5. Kryddið með salti og pip­ar.
  6. Rétt­ur­inn er til­bú­inn þegar skelj­arn­ar opna sig.
  7. Berið kræk­ling­inn fram með brauði.

Miðvikudagur – Hunangs- og hvítlaukskjúklingur

„Það er gott að brjóta upp vikuna á miðvikudögum með góðum kjúklingi og þessi hér er aldeilis skemmtilegur og frumlegur.“ 

Hunangs- og hvítlaukskjúklingur.
Hunangs- og hvítlaukskjúklingur.

 Fimmtudagur – Klassískur plokkfiskur og rúgbrauð

„Ég elska plokkfisk og fimmtudagar eru oftar en ekki lengstu vinnudagarnir hjá mér. Það er því tilvalið á þeim dögum að skella í gamaldags plokkfisk.“

Klassískur plokkfískur á gamla mátann borinn fram með rúgbrauði.
Klassískur plokkfískur á gamla mátann borinn fram með rúgbrauði. mbl.is/Árni Sæberg

Föstudagur – Hvítlauksrækjur að hætti Spánverja

„Eftir langa vinnuviku vil ég helst fara bara djúpt inn í þægindarammann. Minn uppáhalds réttur í heiminum er einfaldur. Hvítlauksrækjur að hætti Spánverja, muna að flambera.“

Rækjur í hvítlauk að hætti Spánverja.
Rækjur í hvítlauk að hætti Spánverja.

Laugardagur – Ómótstæðilegar andabringur og ljúffengt meðlæti

Önd er í sérstöku uppáhaldi hjá mér og hægt er að fá frosnar bringur í næstu kjörbúð á ekkert sérstaklega háu verði þegar maður vill gera vel við sig á laugardegi. 

Ómótstæðilega andabringur með ljúffengu meðlæti.
Ómótstæðilega andabringur með ljúffengu meðlæti. Ljósmynd/Linda Ben

Sunnudagur – Hamborgari með bernaise-sósu

„Hér væru sumir með sunnudagssteikina í efsta sæti. En á sunnudögum er ég stundum að jafna mig eftir örlítið helgarstuð svo ég er líklegastur til að henda í hamborgara og franskar sem bara snerta akkúrat réttu fletina. Ekki er verra ef það er smá frönsk sveifla.“

Hamborgari með bernaise-sósu klikkar seint.
Hamborgari með bernaise-sósu klikkar seint. Ljósmynd/Berglind Hreiðars
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert