Morgunskál með leynigesti

mbl.is/Marta María Winkel Jónasdóttir

Þegar ég var lítil elskaði ég kaffijógúrt. Eina vandamálið við kaffijógúrtina var hvað hún var fljótt búin. Það var einmitt út af þessu sem ég varð svo óskaplega hamingjusöm þegar ég rakst á kaffiskyr í matvörubúðinni. Það sem það hefur fram yfir kaffijógúrtina sem var vinsæl á níunda áratugnum í Árbænum er að maður verður miklu saddari og svo endist þetta allt saman miklu betur þegar kaffiskyrið hittir hnetusmjör og smá leynigest. 

Talandi um leynigest. 

Þegar maðurinn minn var lítill þótti honum skyr hræðilega vont. Hann var reglulega í pössun hjá ömmusystur sinni sem var bóhem og söngkona. Hún hafði ekki mikil fjárráð en hún kunni að búa til stemningu og gleði úr litlu.

Þegar hann kom svangur heim úr skólanum bauð þessi uppáhaldsfrænka oft upp á skyr. Sú gamla fann leið til að fá litla matvanda borgarbarnið til þess að borða skyr og það gerði hún með því að taka lítill súkkulaðimola, skera hann í bita, og bæta út í skyrið. Leikurinn gekk út á það að hann myndi finna leynigestinn. Áður en hann vissi af var hann búinn að háma í sig allt skyrið því hann var svo spenntur yfir leynigestinum.

Núna þarf ekki að lauma leynigesti út í skyrið til þess að fá hann til að borða það. Hann hámar það í sig með bestu lyst og hinir á heimilinu reyndar líka. Þessi skyrskál er til dæmis tilvalinn hádegismatur fyrir fólk á ferðinni því auðvelt er að grípa með sér það sem til þarf og engin fyrirhöfn að hræra þessu dýrindi saman og háma í sig. 

Morgunskál með leynigesti

  • 1 dós skyr með kaffibragði
  • 2 msk. kollagenduft frá Feel Iceland
  • 1-2 msk. lífrænt hnetusmjör
  • 1 msk. grófar kókósflögur
  • 4 bitar af suðusúkkulaði, smátt skornir
  • Bláber eftir smekk 

Aðferð: 

  1. Setjið skyr í skál og hrærið kollagenduftinu út í. 
  2. Setjið hnetusmjörið út á.
  3. Skreytið með bláberjum og kókósflögum
  4. Skerið niður súkkulaðibitana og bætið út á. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert