Leikmenn City valin best

Phil Foden.
Phil Foden. AFP/Ben Stansall

Knattspyrnufólkið Phil Foden og Khadija Shaw, leikmenn Manchester City, hafa verið valin leikmenn ársins á Englandi, karla- og kvennamegin, af blaðamönnum.

Foden hefur átt virkilega gott tímabil fyrir City en liðið er í harðri titilbaráttu við Arsenal þegar stutt er eftir af mótinu. Arsenal á þrjá leiki eftir en City á fjóra, en City er stigi á eftir Arsenal.

Foden, sem er sóknarsinnaður miðjumaður, hefur skorað 16 mörk á tímabilinu og lagt upp sjö en hann hlaut 42% atkvæða. Declan Rice, miðjumaður Arsenal, endaði í öðru sæti í kosningunni en Rodri, liðsfélagi Foden hjá City, endaði í þriðja.

Khadija Shaw hefur verið algjör lykilmaður hjá toppliði Manchester City á tímabilinu. Þessi 27 ára gamli framherji hefur skorað 21 mark í 18 leikjum en City er með sex stiga forskot á toppi deildarinnar. 

Hún hlaut algjöra yfirburðakosningu, eða um 80% atkvæða. Í öðru sæti var Lauren James, leikmaður Chelsea og í þriðja sæti var Alex Greenwood, liðsfélagi Shaw hjá City.

Khadija Shaw.
Khadija Shaw. Ljósmynd/Manchester City
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert