Ótrúleg frásögn Arnars: Þá tók hann upp byssu

Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Arnar Grétarsson, þjálfari karlaliðs Vals í fótbolta, þekkir grískar íþróttir vel en hann lék með AEK í Aþenu á árunum 1997 til 2000 og var yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu árin 2010 til 2012.

Karlaliðs Vals í handbolta mætir Olympiacos í úrslitum Evrópubikarsins og Arnar rifjaði upp sögu frá því hann var leikmaður með AEK á blaðamannafundi Vals í dag. Hann sagði gríska stuðningsmenn afar blóðheita.

„Ég var þarna í nokkur ár og fékk að kynnast þessari geðveiki. Grikkirnir hugsa ekki með höfðinu heldur hjartanu þegar kemur að íþróttum. Það er allt dæmt eftir úrslitum. Þeir eru rosalega ástríðufullir en kannski aðeins rólegri þegar kemur að Evrópuleikjum. Það er meiri ástríða og hiti þegar erkifjendur mætast.

Þegar ég var leikmaður mættum við Olympiacos á heimavelli og það er mjög mikill rígur þar. Ég spilaði ekki leikinn og var fljótur að fara í göngin eftir leik, sem tapaðist 0:3. Ég sé einhvern ægilegan spaða fyrir framan mig og einhvern með honum.

Við löbbum í átt að VIP-herberginu. Við opnum herbergið og það verður allt brjálað því þessir snillingar löbbuðu inn með mér og annar þeirra var hlæjandi. Á einni sekúndu breytist allt og það verður allt vitlaust. Þeir byrja að kasta öskubökkum og stólum.

Þá tekur gæinn fyrir aftan mig upp byssu og þá er ráðist á hann. Áður en maður veit er kominn hnífur og hann kominn með hníf í lærið og það var blóð út um allt og þrjú skot skotin upp í marmarann.

Þetta var maður á vegum knattspyrnusambands Grikklands og það fór fyrir brjóstið á þeim að hann hafi labbað þarna inn eftir 3:0-tap. Sem betur fer dó enginn,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert