Framboð Viktors metið gilt

Viktor Traustason.
Viktor Traustason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landskjörstjórn kom saman klukkan 16:00 í dag á fjarfundi og úrskurðaði um gildi framboðs Viktors Traustasonar.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem landskjörstjórn sendi frá sér rétt í þessu. 

Eftir að úrskurðarnefnd kosningamála úrskurðaði að Viktori Traustasyni bæri að fá frest til að bæta úr ágöllum á meðmælalistum sínum veitti landskjörstjórn honum 23 tíma frest til þess að bæta úr þeim og rann sá frestur út klukkan 15 í dag.

Landskjörstjórn hefur á ný kannað þau meðmæli sem fylgdu framboði Viktors ásamt þeim lagfæringum sem gerðar voru á þeim auk þeirra meðmæla sem síðar bættust við eftir að meðmælasöfnun var opnuð að nýju á Ísland.is.

Eftir þá yfirferð hefur landskjörstjórn úrskurðað framboð Viktors Traustasonar til kjörs forseta Íslands gilt.

Forsetakosningar fara fram laugardaginn 1. júní og eru frambjóðendur nú tólf talsins. 

Í kjöri til forsetaembættisins eru:
• Arnar Þór Jónsson
• Ásdís Rán Gunnarsdóttir
• Ástþór Magnússon Wium
• Baldur Þórhallsson
• Eiríkur Ingi Jóhannsson
• Halla Hrund Logadóttir
• Halla Tómasdóttir
• Helga Þórisdóttir
• Jón Gnarr
• Katrín Jakobsdóttir
• Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir
• Viktor Traustason

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert