Sautján greinst með kíghósta

Horft yfir höfuðborgarsvæðið. Mynd úr safni.
Horft yfir höfuðborgarsvæðið. Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Kíghósti hefur greinst hjá sautján einstaklingum og flestir þeirra sem hafa greinst eru af höfuðborgarsvæðinu.

Þetta segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. Einhver hluti þeirra sem hafa greinst er af landsbyggðinni en eins og fram kom á mbl.is í gær var skimað fyrir kíghósta hjá einum leikara hjá Leikfélagi Sauðárkróks.

„Við höfum verið að skerpa á okkar leiðbeiningum og ráðgjöf bæði á vefnum til almennings og einnig til heilbrigðisstarfsfólks með samtölum og tölvupóstum sem við sendum á umdæmis- og svæðislækna og yfirlækna,“ segir Guðrún.

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir. mbl.is/Hallur Már

Kíghóstinn mjög smitandi

Spurð hvort kíghóstasmitin hafi verið að greinast hjá einstaklingum á öllum aldri segir Guðrún:

„Sem betur fer hafa þetta ekki verið ung börn sem hafa greinst en þessir einstaklingar eru frá tveggja ára til fertugs sem ég hef séð. Kíghósti er mjög smitandi og það sem er líka vandamál við hann er að vörnin dvínar og þótt þú hafi fengið kíghósta þá getur þú fengið hann aftur.“

Guðrún segir að ekki hafi þurft að flytja neinn á sjúkrahús að því að hún best viti en hún segir að þessi sautján staðfestu greiningar þýði að það sé búið að rannsaka viðkomandi.

Getur reynst hættulegur ákveðnum hópum

„Væntanlega eru fleiri smitaðir sem ekki hafa verið tekin sýni hjá en eru með einkenni,“ segir Guðrún. 

Er þessi staða eitthvað sem þið hafið áhyggjur af?

„Já við höfum það því kíghósti getur reynst alvarlegur og hættulegur ákveðnum hópum og þá sérstaklega hjá ungbörnum. Það hefur verið mikið um kíghósta í Evrópu og það er vel þekkt að það komi svona faraldrar á nokkurra ára fresti. Kíghósti lá niðri í covid en það hefur verið mikið um smit í Evrópu á þessu ári.“

Guðrún segir að það sé viðbúið að kíghóstasmit haldi áfram að berast til landsins og þess vegna sé það brýnt að fólk haldi vöku sinni bæði fyrir einkennunum, hvaða aðilar þurfi að passa sig og hvað þeir geti gert.

Aðalvörnin að viðhalda bólusetningum

Guðrún segir mikilvægt fyrir fólk að vera meðvitað um að kíghóstasmit sé í gangi og ef fólk finni fyrir einkennum þá eigi það að varast að vera í umgengni við ung börn sérstaklega, barnshafandi konur, eldra fólk og fólk sem er með undirliggjandi sjúkdóma.

„Aðalvörnin er að viðhalda bólusetningum og þá sérstaklega hjá ungum börnum. Það eru nokkrir skammtar sem þarf að fá af þessu bóluefni, sem við reynum alltaf að tryggja að sé til og það sé aðgengi að því hjá heilsugæslunni sem sér um framkvæmdina.“

Spurð út í aðrar veirusýkingar sem eru í gangi segir Guðrún að nokkuð sé um inflúensu en ekkert hafi verið um covid-smit né RS. Hún segir að hinar og þessar kvefveirur geri einnig vart við sig.

Viðbúið er að veirusýkingum fjölgi í takt við ferðalög fólks til og frá landinu. „Það koma alltaf einhverjar sýkingar með komu ferðamanna til landsins og alls ekki síður hjá Íslendingum sem halda utan og koma aftur heim. Þeir eru oftar en ekki í meiri tengslum heldur en túristarnir sem eru meira út af fyrir sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert