Gylfi lagði upp tvö – KR skoraði níu og HK áfram

Reynsluboltinn Birkir Már Sævarsson með boltann í kvöld.
Reynsluboltinn Birkir Már Sævarsson með boltann í kvöld. mbl.is/Arnþór

Valur vann afar sannfærandi sigur á FH, 3:0, í eina úrvalsdeildarslag 32-liða úrslita bikarkeppni karla í fótbolta á heimavelli sínum á Hlíðarenda í kvöld.

Hólmar Örn Eyjólfsson kom Val á bragðið á 5. mínútu með skalla úr teignum eftir hornspyrnu frá Gylfa Þór Sigurðssyni. Danski framherjinn Patrick Pedersen bætti við öðru markinu á 39. mínútu og var staðan í hálfleik 2:0.

Tryggvi Hrafn Haraldsson gerði þriðja markið á 51. mínútu með skoti úr teignum eftir sendingu frá Gylfa og þar við sat. Vont varð síðan verra fyrir FH á 86. mínútu er varamaðurinn Grétar Snær Gunnarsson fékk beint rautt spjald fyrir ljótt brot.

KR er einnig komið áfram eftir 9:2-útisigur á KÁ, Knattspyrnufélagi Ásvalla, sem leikur í 4. deildinni. Þrátt fyrir það kom Bjarki Sigurjónsson Hafnarfjarðarliðinu óvænt yfir á 3. mínútu.

KR svaraði vel því Benoný Breki Andrésson og Luke Rae skoruðu tvö mörk hvor og komu KR í 4:1. Friðleifur Kr. Friðleifsson lagaði stöðuna fyrir KÁ með marki úr vítaspyrnu á 55. mínútu, 4:2.

Samuel Blair markvörður KR fékk rauða spjaldið um leið og vítaspyrnan var dæmd en tíu KR-ingar tóku endanlega völdin og skoruðu fimm mörk í viðbót. Óðinn Bjarkason skoraði tvö mörk og þeir Axel Óskar Andrésson, Alex Þór Hauksson og Eyþór Aron Wöhler sitt markið hver.

Þá vann HK úr úrvalsdeildinni sigur á Þrótti úr Reykjavík, sem leikur í 1. deild, 2:1 í Laugardalnum. Englendingurinn George Nunn gerði bæði mörk HK. Það fyrra á 5. mínútu og síðan sigurmarkið á 87. mínútu. Þess á milli jafnaði Viktor Andri Hafþórsson í 1:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka