Aþena endurheimti forystuna

Ifunanya Okoro úr Tindastóli og Barbara Zieniewska hjá Aþenu eigast …
Ifunanya Okoro úr Tindastóli og Barbara Zieniewska hjá Aþenu eigast við í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Aþena er komin í 2:1 í úrslitaeinvígi sínu við Tindastól í umspili um laust sæti í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik á næsta tímabili. Í kvöld vann Aþena nauman sigur, 80:78, í Austurbergi í Breiðholti.

Vinna þarf þrjá leiki til þessa að tryggja sætið í úrvalsdeild og getur Aþena gert það í fjórða leik liðanna á Sauðárkróki næstkomandi þriðjudagskvöld á meðan Tindastóll freistar þess að knýja fram oddaleik.

Í leik kvöldsins var allt í járnum í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 42:39, Aþenu í vil.

Heimakonur mættu kröftugar til leiks í síðari hálfleik og juku forskot um sex stig, staðan að loknum þriðja leikhluta 60:51.

Stólarnir bitu í skjaldarrendur undir lok fjórða og síðasta leikhluta og náðu að jafna metin í 78:78. Sianni Martin tryggði Aþenu hins vegar sigurinn með tveggja stiga körfu 17 sekúndum fyrir leikslok.

Martin var stigahæst í leiknum með 26 stig fyrir Aþenu auk þess sem hún gaf fimm stoðsendingar. Dzana Crnac bætti við 19 stigum.

Stigahæst hjá Tindastóli var Ifunanya Okoro með 25 stig og sex fráköst. Skammt undan var Andriana Kasapi með 23 stig, fimm fráköst og fimm stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert