Fuglar flugu í hreyfil þotu í aðflugi

Akureyrarflugvöllur. Mynd úr safni.
Akureyrarflugvöllur. Mynd úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fuglar flugu í hreyfil þotu frá tékkneska flugfélaginu Smartwings í aðflugi vélarinnar inn á flugbraut Akureyrarflugvallar á sunnudagskvöld.

Vélin var á leið frá Prag í Tékklandi og til stóð að hún héldi til baka síðar um nóttina.

Eftir að í ljós kom að fuglarnir hefðu farið í hreyfil vélarinnar var flugvirki fenginn frá Keflavík til þess að skoða hreyfilinn. Vélin lagði af stað aftur til Prag rúmum sólarhringi síðar. 

Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, en Akureyrir.net greindi fyrst frá. 

Tilkynnti um mögulegan árekstur

Guðjón segir að flugmaður þotunnar hafi tilkynnt um mögulegan árekstur við fugl eða fugla á meðan að á aðfluginu stóð. Fyrir vikið hafi þotan verið skoðuð og áreksturinn staðfestur. 

Hann nefnir að önnur vél hafi verið á leið til Prag frá Akureyrarflugvölli sama kvöld og gat hún hlaupið í skarðið fyrir hina sem varð fyrir árekstrinum og ferjað farþegana til Prag.

„Það var enginn fastur hér á landi út af þessu atviki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert