„Eyddi nánast allri nóttina í þetta“

Það var taka tvö hjá Viktori Traustasyni í dag.
Það var taka tvö hjá Viktori Traustasyni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsetaframbjóðandinn Viktor Traustason skilaði inn meðmælalistum fyrir framboð sitt í annað sinn í morgun eftir að hann fékk aukafrest til að safna meðmælum.

Úrskurðarnefnd kosningamála staðfesti að meiriháttar ágalllar hafi verið á meðmælendaliðsta Viktors og að hann hafi einungis haft 69 gilda meðmælendur. Hann fékk frest til klukkan 15 í dag að skila meðmælalistum til Landskjörstjórnar.

„Ég þurfti að bæta við lögheimili og þegar ég tók þetta gróflega saman þá held ég að þetta hafi verið á milli 1.400 - 1.480 færslur sem ég skilaði inn í morgun,“ segir Viktor við mbl.is.

Viktor segir að þetta hafi gengið ágætlega. Hann segist hafa fengið sólarhrings frest en það hafi verið um fimm klukkustundir eftir af frestinum þegar hann skilaði meðmælalistanum.

„Ef maður hefur verið í háskóla og skilað lokaverkefnum þá held ég að það viti allir hvernig það virkar. Ég eyddi nánast allri nóttina í þetta,“ segir Viktor.

Spurður hvort hann sé ekki bjartsýnn á að honum hafi tekist að skila fullnægjandi meðmælalista sagði hann:

„Ég er ekkert að spá of mikið í því. Nú er þetta komið úr mínum höndum þar sem ég gerði mitt besta. Mér líður ekkert betur að vera að hafa einhverjar áhyggjur á meðan það er ekkert sem ég get gert í því.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert