Tyrkir stöðva viðskipti við Ísrael

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Tyrkir hafa ákveðið að stöðva öll viðskipti við Ísrael þar til mannúðaraðstoð verði tryggð á Gasasvæðinu.

Viðskipti milli landanna tveggja námu tæpum 7 milljörðum dala á síðasta ári, eða því sem nemur tæpum 980 milljörðum íslenskra króna.

Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, sakar Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, um að haga sér eins og einræðisherra. Hann segir að Erdogan virði að vettugi hagsmuni tyrknesku þjóðarinnar og kaupsýslumanna og og hundsi alþjóðlega viðskiptasamninga.

Ísraelski utanríkisráðherrann segir að hann hafi falið utanríkisráðuneytinu að leita nýrra viðskipta utan Tyrklands og með áherslu á staðbundna framleiðslu og innflutning frá öðrum löndum.

Samskiptin versnað á síðustu áratugum

Samskipti Tyrkja og Ísraelsmanna hafa versnað mjög á síðustu áratugum en Tyrkir voru fyrstir múslímaríkja til að viðurkenna sjálfstæði Ísraels árið 1949.

Erdogan hefur orðið sífellt harðari í gagnrýni sinni á Ísrael eftir mannskæða árás Hamas á Ísrael 7. október í fyrra. Hann hefur gagnrýnt Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, harkalega og hefur líkt honum við Adolf Hitler, Benito Mussolini og Jósef Stalín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert