Þingkonu byrluð ólyfjan og hún beitt ofbeldi

Brittany Lauga árið 2015.
Brittany Lauga árið 2015. Ljósmynd/Wikipedia.org

Lögreglan í Ástralíu hefur hafið rannsókn á máli Brittany Lauga, þingmanns í Queensland-ríki, en henni var byrluð ólyfjan og hún beitt kynferðisofbeldi. 

BBC greinir frá. 

Lauga greindi frá því að ráðist hefði verið á hana er hún var úti að skemmta sér í borginni Yeppoon.

„Þetta gæti hafa komið fyrir hvern sem er og, því miður, kemur þetta fyrir marga,“ sagði hún í færslu á samfélagsmiðlum.  

Lauga, sem er 37 ára gömul, gegnir einnig embætti aðstoðarheilbrigðisráðherra Ástralíu. Hún hefur setið á ástralska þinginu frá árinu 2015. 

Öðrum konum byrlað sama kvöld

Að morgni 28. apríl fór hún á lögreglustöð og síðan á sjúkrahús. 

„Rannsóknir sjúkrahússins staðfestu lyf í blóði mínu sem ég tók ekki,“ sagði í færslunni. Þá bætti hún við að lyfið hefði haft mikil áhrif á sig. 

Lögreglan í Queensland staðfesti að verið væri að rannsaka kynferðisbrot í Yeppon sem átti sér stað á sunnudag. 

Aðrar konur hafa haft samband við Lauga þar sem þeim var byrlað eitthvað sama kvöld. 

„Þetta er ekki í lagi. Okkur á að vera frjálst að skemmta okkur án þess að eiga á hættu að vera byrluð ólyfjan eða verða fyrir árás,“ sagði í færslunni. 

Lauga sagðist þurfa tíma til þess að jafna sig „líkamlega og andlega“.

Lögreglan sagði að engar aðrar tilkynningar hefðu borist um álíka brot sama kvöld en bað alla þá sem hefðu upplýsingar eða hefðu orðið fyrir því sama að hafa samband. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert