Talsverð tuska í andlitið

Vestramenn fagna marki Andra Rúnars í dag.
Vestramenn fagna marki Andra Rúnars í dag. mbl.is/Eyþór

Andri Rúnar Bjarnason leikmaður Vestra átti flottan leik í dag og skoraði tvö flott mörk gegn FH í 5. umferð Bestu deildar karla í fótbolta. Það dugði ekki til því Vestri tapaði leiknum 3:2. Við ræddum við Andra Rúnar eftir leik:

Þú skorar tvö mörk í dag en liðið tapar. Hvernig metur þú þennan leik?

„Þetta er svolítið sárt í ljósi þess að þetta var í okkar höndum í hálfleik. Við vorum búnir að tala um hvar þeir myndu reyna að refsa okkur og þrátt fyrir að hafa talað um það og undirbúið þá leyfðum við þeim samt að gera það.

Það var því mjög klaufalegt af okkur að leyfa þeim að koma með þetta jöfnunarmark svona snemma í síðari hálfleik. Þetta var talsverð tuska í andlitið og mér fannst við aldrei ná okkur almennilega á strik eftir jöfnunarmarkið. "

Á 60 mínútu gerið þið þrefalda skiptingu og svo í kjölfarið er víti sem færir FH forystu í leiknum. Ertu sammála því að Vestri hafi aldrei gert almennilega atlögu að jöfnunarmarki í kjölfarið?

„Við fengum eitt fær þegar það voru ca. 10 mínútur eftir en dæmt rangstaða. Það var flott sókn og hefði átt að vera mark en við vorum bara klaufar þar. Síðan vorum við óheppnir í fyrri hálfleik því við þurftum að gera tvær skiptingar og áttum því bara eitt stopp eftir fyrir skiptingar og því þurfti að gera þrefalda skiptingu í einu. Það er alveg þokkalega rétt metið að við vorum ekki nægilega hættulegir síðustu 25-30 mínúturnar"

Vestri er með 6 stig af 15 mögulegum. Er það á pari við það sem þið lögðuð upp með í byrjun móts?

„Já ég held að þetta sé bara á pari. Það sem við horfum mest á eru frammistöðurnar sem við erum að sýna. Það sýnir að við erum alveg klárir í þessa deild. Breiðabliksleikurinn, jú fáum rautt spjald þar og leikurinn litaðist svolítið af því. Fáum okkur klaufalegt víti. En ég held við séum alveg að sýna það að við eigum alveg heima í þessari deild og uppskeran er 6 stig en frammistaðan sýnir að við eigum inni alveg fleiri stig ef við höldum svona áfram,“ sagði Andri Rúnar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert